Afmælisbörn 10. janúar 2023

Karólína Eiríksdóttir

Í dag eru tvö afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Sverrir Guðjónsson kontratenór er sjötíu og þriggja ára gamall í dag. Hann var snemma viðloðandi tónlist á æskustöðvum sínum á Hellissandi, söng sjö ára á söngskemmtun við undirleik föður síns (Guðjóns Matthíassonar) og söng inn á tvær litlar plötur aðeins tólf ára gamall. Hann nam söng hér heima og á Bretlandseyjum og hefur síðan sungið inn á fjölmargar plötur, bæði undir eigin nafni og annarra, sem einsöngvari. Hann er einn af stofnendum Voces Thules. Sverrir söng með sveitum á yngri árum s.s. Pónik og þjóðlagatríóinu Þremil. Þess má geta að Sverrir lék á trommur á nokkrum plötum sem Guðjón faðir hans kom að, en Sverrir var þá barn að aldri, um tólf ára gamall.

Þá á tónskáldið og tónlistarkennarinn Karólína Eiríksdóttir sjötíu og tveggja ára afmæli á þessum degi. Karólína hefur verið í fremstu röð íslenskra tónskálda um árabil og hefur samið tónlist af ýmsu tagi, hljómsveita- og kammerverk fyrir minni og stærri hljómsveitir og kóra, óperur, leikhústónlist, söng- og kórlög og margt fleira en mörg verka hennar hafa komið út á plötum, bæði í hennar eigin nafni og annarra s.s. Kammersveitar Reykjavíkur, Hamrahlíðarkórsins, Hymnodiu o.fl.

Vissir þú að Hörður Bragason organisti (Apparat Organ Quartet o.m.fl.) er faðir Steinunnar eldflaugar (Dj flugvél og geimskip)?