
Haukur Tómasson
Tvö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:
Böðvar Guðmundsson rithöfundur sem er þekktastur fyrir Vesturfarasögurnar Hýbýli vindanna og Lífsins tré, er áttatíu og fjögurra ára gamall í dag. Böðvar var virkur á vinstri arminum hér áður fyrr og kom þá oft fram sem trúbador þar sem hann flutti eigin lög og ljóð. Hann gaf jafnframt út tvær plötur á sínum tíma, fimm laga smáskífuna Þjóðhátíðarlög 1974 (1974) og breiðskífuna Það er engin þörf að kvarta (1981). Hann hefur einnig samið og þýtt fjölda söngtexta, m.a. fyrir leikhús og má þar nefna Emil í Kattholti, Kysstu mig Kata og Ronju ræningjadóttur.
Haukur Tómasson tónskáld er sextíu og þriggja ára gamall á þessum degi. Haukur nam píanóleik og tónsmíðar í Evrópu og Bandaríkjunum og hefur unnið til ýmissa verðlauna fyrir samtíma tónlist sína hér heima og erlendis. Þá hefur tónlist hans komið út á fjölda platna, m.a. í samstarfi við Caput hópinn.
Vissir þú að Herbert Guðmundsson gaf út sína fyrstu sólóplötu, Á ströndinni árið 1977 og að Mike Pollock var meðal lagahöfunda þar?