
Karl Örvarsson
Sjö tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu í dag, þau eru:
Stórsöngvarinn og strætóbílstjórinn André Bachmann er sjötíu og fjögurra ára í dag, hann er einna þekktastur fyrir framlag sitt til ýmissa styrktarverkefna í formi tónleika og plötuútgáfu en hefur einnig gefið út sólóplötur og sungið með hljómsveitum eins og Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar (Steina spil), Aríu, Gleðigjöfunum, Stefnumótum og Hljómsveit André Bachmann.
(Guðjón) Halldór Óskarsson organisti og stjórnandi fjölda kóra í Rangárþingi og víðar, er fimmtíu og sjö ára. Hann hefur stýrt flestum kórum í Rangárvallasýslu á síðustu árum s.s. Karlakór Rangæinga, Kammerkór Rangæinga og Samkór Oddakirkju svo einhverjir séu nefndir, einnig hefur hann stjórnað eldri kór Karlakórs Reykjavíkur, Kvennakór Hafnarfjarðar og Barnakór Víðistaðakirkju svo dæmi séu tekin. Halldór söng sjálfur á yngri árum með sönghópum eins og Austan 9, RÁ-kvartettnum, Litlu Heklu og Viri Cantanes.
Söngkonan Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eða bara GDRN er tuttugu og sjö ára gömul í dag. Þessi hæfileikaríka tónlistarkona skaust upp á stjörnuhimininn 2017 en hún hefur samið tónlist frá því um tvítugt og sent frá sér breiðskífur og fjölda smáskífna. Hún hefur nú þegar unnið til fjölda viðurkenninga fyrir tónlist sína, m.a. á Íslensku tónlistarverðlunum.
Akureyringurinn Karl (Birgir) Örvarsson tónlistarmaður er fimmtíu og sex ára gamall. Hann er af miklum tónlistarættum, er sonur Örvars Kristjánssonar en einnig eru bræður hans og frændur viðloðandi tónlist. Karl hefur gefið út sólóplötu en einnig sungið og leikið á hljómborð með hljómsveitum eins og Helfró, Hunang, Eldfuglinum, Stuðkompaníinu, Sýkkklunum, Trúboðunum og Skriðjöklum.
Georg Kári Hilmarsson bassaleikari og tónskáld fjörutíu og eins árs afmæli í dag, hann hefur leikið með sveitum eins og Sprengjuhöllinni, Markús and the diversion sessions og rappdúettnum RLR. Georg Kári lauk tónsmíðanámi við Listaháskóla Íslands 2013.
Einnig hefði Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson tónlistarmaður átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2009. Steingrímur (f. 1960) var í hljómsveitum eins og Júpiters, Oxsmá, Langa Sela og skuggunum, Hljómsveit Ellu Magg og Dívan grimma.
Og að síðustu er hér nefndur Magnús Guðmundsson frá Hvítárbakka (1925-91), hann var öflugur baritónsöngvari og söng m.a. í Kátum piltum og Fóstbræðrum auk Fjórtán fóstbræðra en hann gaf einnig út plötuna Gluntasöngva ásamt Ásgeiri Hallssyni árið 1974. Þá má heyra kórsöng hans á plötum Fóstbræðra og Fjórtán fóstbræðra, auk þess sem hann léði syni sínum Jakobi rödd sína á plötunni Horft í roðann í laginu Röndótta mær.
Vissir þú að Herra Hnetusmjör er barnabarn Magnúsar Bjarnfreðssonar sem var fréttamaður á Ríkissjónvarpinu fyrir margt löngu?