Böðvar Guðmundsson (1939-)

Böðvar Guðmundsson

Böðvar Guðmundsson er öllu þekktari rithöfundur og þýðandi en tónlistarmaður en þó liggur eftir hann breiðskífa með eigin lögum, auk fimm laga smáskífu.

Böðvar er fæddur á Kirkjubóli í Hvítarsíðu 1939, sonur Guðmundar Böðvarssonar skálds. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og cand. mag. námi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Böðvar fékkst nokkuð við kennslu, bjó m.a. á Akureyri um nokkurt skeið en hefur búið erlendis, aðallega í Danmörku síðustu áratugina. Hann starfaði mikið í kringum leikhús, var einn af stofnendum Alþýðuleikhússins m.a. og hefur samið fyrir leikhús. Hann hefur jafnframt starfað nokkuð í fjölmiðlum, fékkst við dagskrárgerð í útvarpi og hefur ritað pistla í Þjóðviljann m.a.

Böðvar hefur alltaf fengist við skáldskap í margs konar formi, gefið út ljóð og ljóðabækur, skáldsögur, leikrit og fræðitexta auk þýðinga. Hann er líkast til þekktastur fyrir sannsögulegu skáldsagna-dúólógíuna Hýbýli vindanna / Lífsins tré en hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir síðarnefndu bókina. Þá samdi hann leikrit eins og Skollaleik, Krummagull og Loki þó, og Fátækt fólk leikgerð byggða á samnefndri bók Tryggva Emilssonar. Meðal þýðinga má nefna bókina um Kalla og sælgætisgerðina (Charlie and the chocolate factory), leikritin og söngleikina Túskildingsóperuna, Kysstu mig Kata, Ronju ræningjadóttur og Vesalingana, auk söngtextana við Emil í Kattholti, einnig óperettuna Leðurblökuna.

Böðvar var lengi róttækur á vinstri arminum, starfaði fyrir Fylkinguna og var hluti af þeirri þjóðlaga- og trúbadoravakningu sem hér var hérlendis snemma á áttunda áratugnum. Á þeim tíma kom hann oft fram og söng eigin lög og ljóð, oft um veru bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli.

Böðvar á áttunda áratugnum

Haustið 1974, árið sem Íslendingar fögnuðu 1100 ára byggð á Íslandi, sendi hann frá sér í félagi við Kristin Sigmundsson (síðar stórsöngvara) fimm laga plötu sem bar titilinn Þjóðhátíðarljóð 1974. Kristinn var þar í hlutverki gítarleikara en Böðvar sá sjálfur um annan hljóðfæraleik og söng. Lög og textar sem voru eftir Böðvar sjálfan, voru eins og vænta mátti mestmegnis í anda Ísland úr NATO, herinn burt-línunni og hlaut platan góða dóma í Stúdentablaðinu. Samtök herstöðvaandstæðinga gáfu plötuna út.

Um sama leyti og platan var að koma út var gerður sjónvarpsþáttur um þrjá unga og efnilega trúbadora, Böðvar, Örn Bjarnason og Magnús Þór Jónsson (Megas), undir nafninu Það eru komnir gestir en þátturinn var í umsjá Ómars Valdimarssonar. Fleiri þættir höfðu verið gerðir og sýndir í sömu þáttaröð og höfðu viðmælendurnir verið, að mati þremenninganna, stífir og uppstrílaðir, því ákváðu þeir (hver fyrir sig án þess að ráðfæra sig við hina) að mæta frjálslegir til fara til mótvægis við fyrri viðmælendur. Megas hafði aukinheldur hlotið einhverja rispu eða áverka á annað augað og því var ákveðið að hann yrði með svartan lepp fyrir auganu, sem var ekki beinlínis til að gera þá félaga traustvekjandi að mati yfirmanna Sjónvarpsins. Í þættinum var spjallað við þá félaga og þeir fluttu síðan hver um sig lag og texta eftir sjálfan sig. Framlag Megasar var lagið Vertu mér samferða inn í blómalandið amma, sem fjallar m.a. um að guð búi í gaddavírnum og garðslöngunni, og það varð úr að sýning þáttarins var bönnuð með fjórum atkvæðum útvarpsráðs gegn þremur. Ástæðan var guðlast. Þátturinn var því aldrei sýndur en brot úr honum var sýnt áratugum síðar og þótti þá ekkert tiltökumál. Það kaldhæðnislega í þessu öllu var líklega að í þættinum er Böðvar spurður hvort hann hefði einhvern tímann verið ritskoðaður, hann svaraði því til að sem betur fer væru Íslendingar fordómalausir og víðsýnir og því hefði hann sloppið við það – svo var þátturinn ritskoðaður og bannaður. Þremenningarnir fengu engu að síður mikla athygli vegna málsins á sínum tíma.

Böðvar Guðmundsson

Önnur plata með lögum og ljóðum Böðvars kom út árið 1981 og hét Það er engin þörf að kvarta. Sú plata var þannig til komin að Mál og menning hafði samband við hann með útgáfu í huga og afraksturinn varð þessi þrettán laga plata sem var öllu fjölbreytari að efni en fimm laga platan, vera Bandaríkjahers á Miðnesheiði var þó enn nokkuð áberandi yrkisefni. Hún var tekin upp í Stúdíó Stemmu og kom fjöldi tónlistarfólks að plötunni, m.a. úr Heimavarnarliðinu sem Böðvar hafði verið hluti af en Einar Einarsson hélt utan um verkefnið og lék á flest hljóðfærin, sönginn annaðist Böðvar sjálfur. Platan hlaut þokkalega dóma í Þjóðviljanum og ágæta í tímaritinu TT og Neista, málgagni Fylkingar byltingarsinnaðra kommúnista en af einhverjum ástæðum birtust ekki aðrir dómar um hana.

Eftir útgáfu þessarar plötu heyrðist lítið frá Böðvari sjálfum á tónlistarsviðinu þótt hann kæmi stöku sinnum fram og flytti eigin lög og ljóð en hann hefur sem fyrr segir búið erlendis. Nokkur laga hans komu út á safnplötunni Baráttusöngvar fyrir friði og þjóðfrelsi (1999) og var gefin út af Samtökum herstöðvaandstæðinga. Einnig hefur komið út bók með ýmsum baráttusöngvum, tækifæriskvæðum, sálmum og þýðingum eftir Böðvar, undir titlinum Alþýðusöngbókin (2009).

Margir textar og textaþýðingar Böðvars hafa komið út á plötum s.s. úr áðurgreindum leikritum og söngleikjum en einnig má nefna texta sem hann hefur samið fyrir tónlistarfólk eins og Bjarka Tryggva, Steinku Bjarna og Heimavarnarliðið sem hann var hluti af og gaf út plötuna Eitt verð ég að segja þér (1979). Þá þýddi/samdi hann texta fyrir plöturnar Áfram stelpur og Róbert bangsa svo fleiri dæmi séu nefnd.

Efni á plötum