
Svala Nielsen
Óperusöngkonan Svala Nielsen var af því sem kallað hefur verið önnur kynslóð óperusöngvara á Íslandi, hún söng óperuhlutverk, söng einsöng á sviði og í útvarpssal bæði ein og ásamt fleirum auk þess sem plata kom út með söng hennar. Hún starfaði þó lítið við söngkennslu eins og svo margir kollegar hennar heldur helgaði sig fjölskyldufyrirtækinu með sönginn í hjáverkum.
Svala Sigríður Hjartardóttir Nielsen fæddist í Reykjavík haustið 1932 og bjó alla tíð í höfuðborginni. Hún hafði snemma gaman að sönglistinni og um ellefu ára aldur gekk hún til liðs við Sólskinsdeildina sem var barnakór sem starfaði undir stjórn Guðjóns Bjarnasonar um árabil. Hún var svo fimmtán ára gömul þegar hún hóf að læra fyrst söng, það var hjá Guðmundi Jónssyni óperusöngvara en síðar átti hún eftir að nema hjá Kristni Hallssyni, Engel Lund, Sigurði Birkis, Maríu Markan o.fl. hér heima en hún fór einnig til Ítalíu og dvaldi þar við söngnám um hálfs árs skeið 1954 og í Þýskalandi árið 1962. Þá nam hún píanóleik um tíma hjá Carl Billich.
Svala hóf að syngja með Þjóðleikhúskórnum og í kringum 1960 hóf hún að syngja einsöng á sviði, bæði óperusöng og dægurlagasöng en hún söng m.a. um tíma með hljómsveit Baldurs Kristjánssonar í Gúttó og þá einnig í dægurlagasamkeppni SKT. Hún söng einnig inn á litla plötu með Alfreð Clausen árið 1962 (Ömmubæn / Mamma mín) ásamt Ingibjörgu Þorbergs og Sigríði Guðmundsdóttur en þær kölluðu sig Tónalísur, þær komu þó aldrei fram opinberlega sem slíkar heldur sungu eingöngu undir þessu nafni á þessari einu tveggja laga plötu. Bakraddasöng Svölu má reyndar heyra á fáeinum öðrum plötum frá þessum tíma.
En fljótlega varð óperusöngurinn ofan á og Svala sem var sópran og mezzosópran söng í ýmsum óperum og óperettum, hún söng lítið hlutverk í Rigoletto í Þjóðleikhúsinu árið 1960 og síðan tóku slík óperuhlutverk við misstór, Amahl og næturgestirnir (1962), Il Trovatore (1963), Madame Butterfly (1965), Ævintýri Hoffmans (1966), Martha (1967) og svo aftur í þeirri óperu í sjónvarpsuppfærslu, og Leðurblakan (1973). Þá söng hún einnig oftsinnis einsöngshlutverk í tónleikauppfærslum á þekktum verkum s.s. í 9. sinfóníu Beethovens ásamt Sinfóníuhljómsveit Ísland, Pólýfónkórnum og öðrum einsöngvurum árið 1966 þar sem hún þótti vinna mikinn söngsigur, Stabat Mater með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Óratóríukór Dómkirkjunnar (1972), Carmina Burana með sinfóníuhljómsveitinni og Söngsveitinni Fílharmóníu (1974) og Requiem e. Mozart með sömu sveit og Óratóríukór Dómkirkjunnar (1974) svo dæmi séu nefnd. Stærsta slíka uppfærsla sem Svala tók þátt í var þó án nokkurs vafa árið 1982 þegar hún söng í 9. sinfóníu Beethovens ásamt fleiri einsöngvurum, karlakórnum Fóstbræðrum, Söngsveit Fílharmóníunnar og Þjóðleikhúskórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói – alls tvö hundruð manns.
Þá var Svala dugleg að koma fram með kórum og syngja með þeim einsöng á tónleikum, til að mynda með Pólýfónkórnum, Söngsveit Fílharmóníunnar, Selkórnum og Karlakór Reykjavíkur en með síðast nefnda kórnum fór hún a.m.k. í tvær ferðir erlendis og söng einnig á plötu með þeim félögum þar sem þeir sungu lög eftir Árna Thorsteinson tónskáld.

Svala í óperuhlutverki 1967
Allt frá árinu 1963, jafnvel fyrr hafði Svala sungið einsönglög í útvarpssal við undirleik píanóleikara eins og Ólafs Vignis Albertssonar en einnig Guðrúnar Kristinsdóttur en þær tvær unnu heilmikið saman. Hún söng einnig lög eftir Skúla Halldórsson tónskáld við undirleik höfundarins sjálfs og eitthvað af því efni átti síðar eftir að rata inn á plötuna Út um græna grundu, sem hafði að geyma lög Skúla. Einsöngslaga upptökur með Svölu í útvarpssal skipta sjálfsagt tugum og víst er að sómi væri að útgáfu á því efni, enda var hún fastagestur sem „síðasta lag fyrir fréttir“. Þá má og geta að hún frumflutti nokkuð af tónlist Ingólfs Sveinssonar tónskálds (föður Rósu Ingólfsdóttur) í útvarpssal og kom honum þannig á kortið ef svo mætti segja. Þegar Sjónvarpið komi til sögunnar árið 1966 söng Svala þar oft einnig.
Svala hélt sjálf aldrei sjálfstæða einsöngstónleika en kom oft fram sem einsöngvari á tónleikum sem skemmtiatriði bæði hér heima og einnig erlendis því hún fór í nokkur skipti utan til að syngja fyrir Íslendingafélög erlendis. Hún starfaði einnig með öðrum einsöngvurum og á sjöunda áratugnum fór hópur þeirra um landið (að minnsta kosti tvö sumur) og hélt tónleika undir yfirskriftinni Farandsöngvarar, þá var Svala um tíma einnig í Einsöngvarakórnum og tók þátt í ýmis konar samstarfsverkefnum s.s. tónleikum í Háskólabíói 1979 sem báru yfirskriftina Óperugleði, söng á héraðsmótum sjálfstæðis- og framsóknarflokksins, á heiðurstónleikum annarra listamanna s.s. Guðmundar Jónssonar sextugum svo nokkur dæmi séu nefnd. Svala söng alla tíð mikið við kirkjulegar athafnir eins og brúðkaup, skírnir og jarðarfarir og einnig á efri árum við almennt messuhald. Þá er enn ógetið að Svala sá um tíma um raddþjálfun fyrir kóra úti á landsbyggðinni og fór víða í þeim erindum.
Nokkrar plötur hafa hér verið nefndar að framan þar sem Svala kom við sögu en haustið 1976 gáfu SG-hljómplötur út breiðskífu með söng Svölu í útgáfuröðinni Íslenzkir einsöngvarar, platan hét Svala Nielsen: fjórtán sönglög eftir fjórtán íslenzk tónskáld / fourteen songs by fourteen Icelandic composers, og innihélt hún eins og nærri má geta sígild íslensk einsöngslög. Hún söng einnig þrjú lög á plötunni Söngkveðjur: Lög eftir Sigurð Ágústsson frá Birtingarholti, sem kom út 1983, og að lokum má geta að hún söng einnig á plötu Árna Johnsen – Milli lands og eyja (1971).
Þrátt fyrir þennan ótrúlega söngferil starfaði Svala alltaf í fyrirtæki fjölskyldunnar, kristals- og postulínsverslunarinnar Hjartar Nielsen en faðir hennar Hjörtur hafði sett hana á laggirnar snemma á sjötta áratugnum og varð Svala síðar meðeigandi hans í fyrirtækinu, söngurinn var því alltaf í hjáverkum og því merkilegt hversu stórt nafn hún skapaði sér í sönglistinni.
Svala Nielsen lést árið 2016, á áttugasta og fjórða aldursári.