Sýkklarnir (1981-83)

Sýkklarnir

Hljómsveit frá Akureyri sem gekk undir nafninu Sýkklarnir markar tímamót að nokkru leyti í norðlensku tónlistarlífi en hún innihélt tvö síðar þekkta tónlistarmenn sem hófu feril sinn innan hennar. Reyndar er rithátturinn Sýkklarnir misvísandi því nafn sveitarinnar hefur verið ritað með ýmsum öðrum hætti s.s. Sýklarnir, Sýkkklarnir, Zýklarnir, Zýkklarnir og Zýkkklarnir – Sýkklarnir er hér notað þar til annað kemur í ljós.

Hljómsveitin var stofnuð haustið 1981 og lék hún nýbylgjurokk eins og það var skilgreint en straumar pönks og nýbylgju höfðu þá borist norður yfir heiðar og má í því samhengi nefna Bara-flokkinn sem þá var þegar orðin þekkt sveit. Meðlimir Sýkklanna í upphafi voru þeir Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson bassaleikari (síðar kenndur við Lost, Hvanndalsbræður, Dægurlagapönksveitina Húfu og fleiri sveitir), Þráinn Brjánsson trommuleikari og Kjartan Ö. Kjartansson gítarleikari en fljótlega bættist annar gítarleikari, Kristinn V. Einarsson við. Hann staldraði þó ekki lengi við og Haraldur Haraldsson tók sæti hans. Hinn gítarleikarinn, Kjartan hætti síðan og Sigurður Guðmundsson fyllti það skarð. Í mars 1982 bættist sveitinni svo loksins söngvari en það var Karl Örvarsson sem tók það hlutverk að sér eftir að nokkrir aðrir höfðu reynt fyrir sér í prufu, Karl þekkja allir sem söngvara Stuðkompanísins og fleiri sveita.

Sýkklarnir höfðu fyrst komið fram opinberlega um áramótin 1981-82 og lék hún á nokkrum tónleikum líklega fram á haustið og hafði þá starfað um eins árs skeið. Hluti sveitarinnar að minnsta kosti tók svo áfram þátt í þeirri akureysku tónlistarvakningu sem þá hafði orðið til og varaði í nokkur ár.