Söngfélag Íslensku kirkjunnar í Wynyard (1937-40)

Í samfélagi Vestur Íslendinga í Kanada voru víða starfandi söngfélög við íslenskar kirkjusóknir og eitt slíkt var stofnað haustið 1937 við sambandskirkjuna í Wynyard í Saskatchewan undir nafninu Söngfélag Íslensku kirkjunnar í Wynyard (einnig kallað Söngflokkur Íslensku kirkjunnar í Wynyard). Sá kór var blandaður og varð strax fjölmennur, skipaður ungu fólki að mestu og söng víðar en við kirkjulegar athafnir í Wynyard, til að mynda fór hann í nágrannabyggðir Íslendinga og hélt þar tónleika. Sigríður Thorsteinsson var fyrsti stjórnandi kórsins og söng hún oft einsöng með kórnum ásamt Haraldi Helgasyni. Á þessum tíma voru þrjár kirkjur í Wynyard og héldu kórar þeirra stundum sameiginlegar söngsamkomur en hinir kórarnir voru skipaðir innfæddu söngfólki.

Haustið 1938 tók Steingrímur K. Hall tónskáld við stjórn kórsins en hann raddsetti jafnframt margt af því sem kórinn flutti á tónleikum, m.a. íslensk þjóðlög, eiginkona hans Sigríður Hall var einsöngvari kórsins á þeim tíma. Í febrúar urðu svo enn söngstjóraskipti þegar kona sem nefnd er J.A. Bíldfell tók við af Steingrími, litlar sem engar upplýsingar er að finna um hana en hún var ekki af íslenskum ættum. Svo virðist sem söngfélagið hafi ekki starfað lengi eftir það, að minnsta kosti finnast ekki upplýsingar þ.a.l.