Hestbak (2003-)

Hestbak er framsækin rafdjassspunasveit sem hefur starfað síðan 2003, sveitin hefur sent frá þrjár plötur hið minnsta og starfar með hléum.

Hestbak mun hafa orðið til innan Listaháskóla Íslands en þar voru þeir Guðmundur Steinn Gunnarsson og Páll Ivan Pálsson við nám. Þeir tveir stofnuðu líkast til sveitina og fengu til liðs við sig tvo aðra nemendur við skólann, þá Jeremiah Runnels og Barbel Schwarz. Þannig var sveitin skipuð fyrst um sinn en tónlist hennar hefur verið skilgreind sem spunnin raftónlist með djassívafi. Síðar hættu útlendingarnir tveir í sveitinni og í þeirra stað komu þeir Áki Ásgeirsson og Ingi Garðar Erlendsson en allir meðlimir sveitarinnar voru á sínum tíma einnig í hinni fjölmennu hljómsveit Benna Hemm Hemm sem lék víða, einnig hefur Jesper Pedersen verið viðloðandi sveitina og um tíma var Óli Björn Ólafsson einnig í henni.

Hljóðfæraskipan Hestbaks er óhefðbundin að því leyti að allir meðlimir hennar eru vopnaðir tölvum en annars leikur Guðmundur Steinn á gítar, Páll Ivan á bassa, Áki á trompet og Ingi Garðar á básúnu.

Hestbak hefur ekki starfað samfleytt frá árinu 2003, framan af var hún nokkuð virk og lék m.a. bæði í Þýskalandi og Bandaríkjunum auk þess að koma fram á tónleikum hér heima og tónlistarhátíðum eins og Iceland Airwaves, Raflost festival og Tectonics hátíðinni, í seinni tíð hefur liðið lengra á milli tónleika hjá sveitinni og líklega hefur hún ekki leikið opinberlega síðan 2014. Það segir þó ekki til um hvort sveitin sé lífs eða liðin.

Þrjár plötur að minnsta kosti hafa komið út með Hestbak, haustið 2004 kom fyrsta plata sveitarinnar út undir titlinum Gratín og ári síðar kom út önnur undir nafninu Mjólk. Árið 2006 tóku þeir félagar upp plötu sem bar nafnið Airwaves, hugsanlega á tónleikum á Iceland Airwaves þá um haustið en sú plata kom ekki út fyrr en 2007. Upplýsingar um þessar útgáfur eru afar takmarkaðar, og hafi komið út fleiri plötur með sveitinni hefur Glatkistan ekki upplýsingar um þær.

Efni á plötum