Hinir og þessir (1988)

Hljómsveit sem hlaut nafnið Hinir og þessir var skammlíf sveit sem sett var sérstaklega saman fyrir einn dansleik á Bíldudal sumarið 1988.

Forsaga málsins var sú að vinnuflokkur frá Dýpkunarfélagi Siglufjarðar var þá staddur við hafnardýpkun á Bíldudal sumarið 1988 og í spjalli þeirra við heimamenn kom í ljós að innan hópsins væru tónlistarmenn, svo fór að sú hugmynd kom upp að slá upp dansleik þar sem tónlistarmenn úr þorpinu og vinnuflokknum hrærðu saman í hljómsveit undir nafninu Hinir og þessir, og svo var bara tekin ein æfing á föstudagskvöldi og haldið ball kvöldið eftir.

Meðlimir Hinna og þessa voru Viðar Örn Ástvaldsson hljómborðsleikari og Þórarinn Hannesson söngvari frá Bíldudal og svo Þorgeir Reynisson söngvari, Þorsteinn Magnússon gítarleikari og trommuleikari sem líklega var Sigurður Reynisson sem komu úr dýpkunarflokknum, að auki kom „að sunnan“ bassaleikarinn Þorleifur Guðjónsson. Þorsteinn, Sigurður og Þorleifur voru þá allir gamalkunnir menn úr bransanum úr sveitum eins og Egó, Drýsli, Þey og fleiri sveitum.