Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar (1975 / 1983-2018)

Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar

Hljómsveitir í nafni Gunnars Þórðarsonar skipta líklega tugum, sú fyrsta var líkast til sett saman árið 1975 en frá árinu 1983 stjórnaði hann fjöldanum öllum af hljómsveitum sem léku í tónlistarsýningum á Broadway, Hótel Íslandi og miklu víðar. Upplýsingar um þessar sveitir eru mis aðgengilegar enda sáu þær mestmegnis um vandaðan undirleik á framangreindum sýningum og þar voru söngvararnir fyrst og fremst í aðalhlutverki en síður hljómsveitirnar. Og sveitirnar hafa jafnframt gengið undir ýmsum nöfnum tengt tilefninu hverju sinni, Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar, Danshljómsveit Gunnars Þórðarsonar, Stórhljómsveit Gunnars Þórðarsonar, Popphljómsveit Gunnars Þórðarsonar og þannig mætti áfram telja.

Í upphafi árs 1975 stjórnaði Gunnar hljómsveit á stórum tónleikum á vegum FÍH en sú sveit gekk undir nafninu Popphljómsveit Gunnars Þórðarsonar. Auk Gunnars sem lék á gítar voru meðlimir sveitarinnar Halldór Pálsson saxófónleikari, Ari Jónsson trommuleikari, Pálmi Gunnarsson bassaleikari, Áskell Másson slagverksleikari og Jakob Frímann Magnússon hljómborðsleikari. Um vorið fór þessi sama sveit til Svíþjóðar og lék þar á tónlistarhátíðinni Alternative music festival í Stokkhólmi en sú hátíð var haldin til að vekja athygli á fjölbreytileika evrópskrar tónlistar og um leið til að mótmæla þeirri lágmenningu sem Eurovision söngvakeppnin þótti breiða út en sænska sveitin Abba hafði sigrað árið á undan með laginu Waterloo í þeirri keppni. Lag með sveitinni kom út á safnplötunni Alternativ Festival: Levande Musik Från Alternativfestivalen i Stockholm 17-22 mars 1975. Svipaður hópur tónlistarmanna hafði leikið á „lokatónleikum“ Ríó tríó-sins (sem gefnir voru út á tvöfaldri tónleikaplötu 1975) nokkru áður en ekki liggur fyrir hvort sú sveit var kennd við Gunnar.

Gunnar starfaði erlendis um nokkurra ára skeið síðari hluta áttunda áratugarins og það var svo árið 1983 þegar Ólafur Laufdal hóf að halda tónlistarsýningar á skemmtistað sínum Broadway í Mjóddinni að hann fékk Gunnar til að stjórna hljómsveitum í slíkum sýningum, í kjölfarið má segja að Broadway og síðan Hótel Ísland hafi verið höfuðvígi Gunnars næstu árin því þar átti hann eftir að starfa með sveitir sínar.

Fyrsta hljómsveit Gunnars (sumarið 1983) var skipuð Sigurði Long saxófónleikara, Ásgeiri Guðjónssyni hljómborðsleikara, Ásgeiri Steingrímssyni trompetleikara, Sigurði Karlssyni trommuleikara og Bjarna Sveinbjörnssyni bassaleikara auk Gunnars sjálfs sem lék á gítar en Sverrir Guðjónsson og Helga Möller sáu um sönginn, Edda Borg leysti Helgu síðar af. Sveitin varð síðan stærri – tólf manna og var þá kölluð Stórhljómsveit Gunnars Þórðarsonar, með tilkomu strengjasveitar en upplýsingar um meðlimi hennar vantar. Hljómsveitin átti síðan lagið Milli tveggja elda á samnefndri safnplötu um haustið en ekki liggja fyrir upplýsingar hverjir skipuðu sveitina þar, Pálmi Gunnarsson söng lagið.

Árið 1984 virðist sveitin hafa gengið í gegnum mannabreytingar, hún lék í ýmsum tónlistarsýningum og stórum viðburðum eins og t.a.m. Fegurðarsamkeppni Íslands auk þess að vera húshljómsveit sem lék á almennum dansleikjum á Broadway og víðar. Þá um sumarið lék sveitin undir söng Björgvins Halldórssonar í þjóðhátíðarlaginu Ástin bjarta en lagið virðist ekki hafa komið út á plötu í þeirra flutningi fyrr en á tónlistarveitum árið 2019. Um haustið kom Gunnar með nýja stórhljómsveit á Broadway en hún var fimmtán manna, engar upplýsingar er að finna um þessa sveit aðrar en að Jon Kjell Seljeseth hljómborðsleikari var einn meðlima hennar en Björgvin Halldórsson, Þuríður Sigurðardóttir og Sverrir Guðjónsson önnuðust sönginn, Shady Owens söng með sveitinni einnig um tíma. Þessi útgáfa sveitarinnar fór til Færeyja til að skemmta en er e.t.v. þekktust fyrir að hafa leikið undir dúettsöng Björgvins og Rod Stewart í Fegurðarsamkeppni Íslands. Og þannig gekk þetta næstu árin, árið 1986 var um að ræða þrettán manna sveit sem fyrir utan að leika á Broadway tók þátt í hátíðarhöldum í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar en um svipað leyti kom út plata undir titlinum Reykjavíkur flugur sem Gunnar hafði yfirumsjón með, hugsanlega kom hljómsveit hans við sögu eða að minnsta kosti einhverjir meðlimir hennar á þeirri plötu sem og plötunni Borgarbragur sem kom út 1985.

Hljómsveit Gunnars 1984

Skipan sveita Gunnars var afar mismunandi og upplýsingar um þær eru takmarkaðar sem fyrr segir, árið 1987 voru í sveit hans Björn Thoroddsen gítarleikari, Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari, Stefán S. Stefánsson saxófónleikari, Rúnar Georgsson saxófónleikari, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari og Gunnlaugur Briem trommuleikari en þessi sveit hans lék m.a. í skemmtiþáttum á Stöð 2 um sumarið 1987. Litlar sem engar upplýsingar er hins vegar að finna um sveitir Gunnars eftir þetta um langt árabil, árið 1990 var sextán manna sveit starfandi í hans nafni sem m.a. innihélt Sigurð Flosason saxófónleikara en Helga Möller og Eyjólfur Kristjánsson sungu með þeirri sveit. Sveitir hans léku áfram mestmegnis á tónlistarsýningum á Broadway í Mjódd og síðan Hótel Íslandi þegar það opnaði, þær voru af öllum stærðum og gerðum og söngvarar eins og Helga Möller, Þorvaldur Halldórsson, Björgvin Halldórsson og margir fleiri sungu með sveitinni en þegar nær dró aldamótum voru það söngvarar eins og Kristján Gíslason, Birgitta Haukdal, Söngsystur o.fl.

Árið 1996 kom út plata með lögum úr ýmsum tónlistarsýningum sem settar höfðu verið á svið af Ólafi Laufdal og það leikur hljómsveit Gunnars stórt hlutverk – platan bar heitið Bítlaárin ‘60 – ’70: ’68 kynslóðin skemmtir sér. Þar er sveitin skipuð Þóri Baldurssyni píanóleikara, Jon Kjell Seljeseth hljómborðsleikara, Gunnlaugi Briem trommuleikara, Þórði Guðmundssyni bassaleikara, Vihljálmi Guðjónssyni gítar- og saxófónleikara, Ásgeiri Steingrímssyni trompetleikara, Kristni Svavarssyni saxófónleikara og Gunnari sjálfum en óljóst er hvort tónlistin á plötunni er frá löngum tíma eða með sveitinni eins og hún var skipuð 1996.

Sveit í nafni Gunnars lék undir söng Álftagerðisbræðra á plötu þeirra árið 1999 og einnig á tónleikum þeirra á næstu árum en sveitin var skipuð á plötunni Jóhanni Ásmundssyni bassaleikara, Sigfúsi Óttarssyni slagverksleikara, Kristni Svavarssyni saxófónleikara og Árna Scheving víbrafón- og harmonikkuleikara auk strengjasveitar sem Sigurlaug Eðvaldsdóttir fiðluleikari, Lovísa Fjeldsted sellóleikari, Guðmundur Kristmundsson lágfiðluleikari, Zbigniew Dubik fiðluleikari og Szymon Kuran fiðluleikari skipuðu.

Hljómsveit Gunnars árið 2002

Sigfús trommuleikari var enn í sveit Gunnars 2001 en aðrir meðlimir voru þá Haraldur Þorsteinsson bassaleikari, Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari, Þórir Úlfarsson hljómborðsleikari og Jóhann Ingvarsson hljómborðsleikari en sveitin lék þá m.a. í sjónvarpsþættinum Milli himins og jarðar á Ríkissjónvarpinu. Enn voru mannabreytingar 2002 en þá höfðu Jón Rafnsson bassaleikari og Jon Kjell Seljeseth hljómborðsleikari komið inn í sveitina í stað Haraldar og Jóhanns en söngvarar með þessari útgáfu sveitarinnar voru Guðrún Árný Karlsdóttir, Tómas Malmberg, Hjördís Elín Lárusdóttir og fleiri, þessi sveit fór m.a. um landsbyggðina undir yfirskriftinni Söngbók Gunnars Þórðarsonar.

Eftir aldamótin virðist Gunnar ekki hafa starfrækt hljómsveitir oft eins og áður, það var mestmegnis í samstarfi við Álftagerðisbræður og þá með hléum en allt til 2016.

Síðustu heimildir um hljómsveit í nafni Gunnars Þórðarsonar er að finna frá árinu 2018 en þá lék sveit hans á Kringlukránni með söngvurum eins og Eiríki Haukssyni og Óttari Felix Haukssyni en engar upplýsingar er að finna um aðra meðlimi sveitarinnar frekar en í samstarfinu við Álftagerðisbræður frá árunum 2007 til 2016.

Efni á plötum