Tónlistarfólk sem lést á árinu 2024

Við áramót er við hæfi að líta um öxl og minnast þeirra sem látist hafa á líðandi ári, og líkt og undanfarin áramót vill Glatkistan heiðra minningu tónlistarfólks sem létust á árinu 2024. Á listanum hér að neðan eru nöfn slíkra 21 tónlistarmanna og -kvenna sem komu að tónlist með einum eða öðrum hætti.


Arthur Moon (1943-2024) – tónlistarmaður og rafeindavirki

Arthur Ross Moon var bassaleikari og lék með fjölmörgum hljómsveitum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hér má nefna sveitir eins og Falcon / Sextett Berta Möller, Lúdó sextett, The Robots, og Rondó tríóið.

 

 


Ársæll Másson (1955-2024) – tónlistarmaður og stærðfræðikennari

Ársæll Másson lék á gítar með ógrynni hljómsveita s.s. Stórsveit Reykjavíkur, Úrkula vonar, Misgenginu, Strandhöggi, Eldvatni, Bítilbræðrum, Bambinos og Föruneyti Gísla Helgasonar svo aðeins fáeinar séu nefndar, hann lék einnig inn á nokkrar plötur.

 

 


Björgvin Gíslason (1951-2024) – tónlistarmaður

Björgvin Gíslason var einn af þekktari gítarleikurum landsins og starfaði með ýmsum þekktum sveitum eins og Pelican, Paradís, Náttúru, Eik, Póker, Das Kapital og Frökkum. Björgvin sendi jafnframt frá sér sólóplötur og lék inn á hundruð platna annarra listamanna og hljómsveita.

 

 


Björn Þórarinsson (1943-2024) – tónlistarmaður og -kennari

Björn Stefán Þórarinsson (Bassi) lék með fjölmörgum hljómsveitum um ævina, þekktust þeirra var án vafa Mánar en hann lék einnig með sveitum eins og Kaktus, Tónabræðrum, Pardus og Frænku hreppstjórans svo nokkrar séu nefndar. Bassi starfaði lengi sem tónlistarkennari og rak um tíma tónlistarskóla.

 


Guðjón Steinþórsson (1955-2024) – tónlistarmaður og -kennari

Guðjón Steinþórsson var gítarleikari og lék með mörgum hljómsveitum bæði á Norðfirði og höfuðborgarsvæðinu, hér má nefna sveitir eins og Goðgá, Amon Ra, Blúsbrot Garðars Harðar og Bumburnar. Hann starfaði einnig lengi sem tónlistarkennari.

 

 


Halldór Bragason (1956-2024) – blústónlistarmaður

Halldór var líklega þekktasti blústónlistarmaður landsins og starfaði með mörgum tónlistarmönnum hér heima og í Bandaríkjunum, þekktust sveita hans var Vinir Dóra (The Blue Ice band) sem gaf út nokkrar plötur en einnig má nefna Blúsmenn Andreu, The Riot, Blúsboltana o.fl. Dóri var jafnframt einn af stofnendum Blúsfélags Reykjavíkur.

 


Haukur Ágústsson (1937-2024) – tónlistarmaður, kennari og prestur

Haukur Ágústsson kom vægast sagt víða við þegar kemur að tónlistarmálum en hann samdi og spilaði tónlist, kenndi hana, skrifaði um hana í fjölmiðlum og kom reyndar að ýmsum félags- og menningarmálum einnig, þá samdi hann og þýddi texta og stjórnaði kórum svo fátt eitt sé nefnt.

 

 


Haukur Guðlaugsson (1931-2024) tónlistarmaður og söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar

Haukur kom að tónlistarmálum með fjölbreytilegum hætti, hann stjórnaði kórum, var organisti og fékkst við tónlistarkennslu. Hann gegndi jafnframt embætti söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar og fékkst við ýmist verkefni tengdum því embætti samhliða ýmsum félagsmálum tónlistarfólks.

 

 


Ingibjörg Smith (1929-2024) – dægurlagasöngkona

Ingibjörg Stefánsdóttir Smith var með allra fyrstu dægurlagasöngkonum Íslands og þrátt fyrir að söngferill hennar hafi verið fremur stuttur þar sem hún fluttist til Bandaríkjanna, lifa nokkur lög hennar ennþá góðu lífi – hér má nefna stórsmelli eins og Við gengum tvö, Oft spurði ég mömmu og Nú liggur vel á mér.

 


Ingvar Hólmgeirsson (1936-2024) – harmonikkuleikari, útgerðarmaður og skipstjóri

Sigurbjörn Ingvar Hólmgeirsson var harmonikkuleikari og öflugur í félagsstarfi harmonikkuleikara, var t.a.m. formaður Harmonikufélags Þingeyinga og Sambands íslenskra harmonikuunnenda, og starfrækti um margra ára skeið hljómsveit í eigin nafni.

 

 


Jón Hallfreð Engilbertsson (1955-2024) – tónlistarmaður

Jón Hallfreð var áberandi í vestfirsku tónlistarlífi, lék með fjölda hljómsveita fyrir vestan (og reyndar einnig á höfuðborgarsvæðinu) s.s. Ömmu Tiktúru, Líparít, Tríó 72 og Gancia svo nokkrar séu nefndar, hann söng með kórum og kenndi tónlist en kom einnig mikið að alls konar félags- og menningarmálum vestra.

 


Jón Nordal (1926-2024) – tónskáld og píanóleikari

Jón Sigurðsson Nordal vann alla tíð að tónlistarmálum sem tónlistarkennari og skólastjóri við Tónlistarskólann í Reykjavík, hann samdi fjölda tónverka fyrir kóra, kammersveitir og stærri hljómsveitir en verður e.t.v. þekktastur fyrir að hafa samið sönglög eins og Hvert örstutt spor og Smávinir fagrir, sem allir þekkja.

 


Jón Þorsteinsson (1951-2024) – óperusöngvari og söngkennari

Jón Þorsteinsson sem kom upphaflega frá Ólafsfirði, var tenórsöngvari sem menntaði sig í sönglistinni víða um Evrópu en starfaði lengi í Hollandi sem óperusöngvari. Þar starfaði hann einnig við söngkennslu sem og hér heima eftir að hann flutti heim. Söng hans má heyra á nokkrum plötum og m.a. kom ein slík út í hans nafni.

 


Ólafur Vignir Albertsson (1936-2024) – píanóleikari

Ólafur Vignir Albertsson var kunnur píanóleikari sem starfaði mikið sem undirleikari einsöngvara, hann fékkst einnig við tónlistarkennslu og tónlistarskólastjórnun. Píanóleik hans má heyra á fjölda platna en einnig kom út árið 2017 fjögurra platna safn með píanóleik hans undir titlinum Söngveisla: Ólafur Vignir Albertsson píanó og 43 söngvarar.

 


Róbert Örn Hjálmtýsson (1977-2024) – tónlistarmaður

Róbert Örn var þekktur fyrir Hljómsveitina Ég sem hann starfrækti en nokkrar plötur komu út með sveitinni, og reyndar hlaut hann nokkrar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir laga- og textagerð á þeim. Einnig starfrækti Róbert Örn hljómsveitirnar Liverpool, PoPPaRoFT og Spilagaldra, sem sendu frá sér plötur líka.

 


Sigríður Hannesdóttir (1932-2024) – leikkona og leiklistarkennari

Sigríður Hannesdóttir var þekktust fyrir framlag sitt til barnamenningar sem hófst fyrir alvöru þegar hún „lék“ Krumma í tvíeykinu Rannveig og Krummi í Stundinni okkar, en svo stofnaði hún það sem síðar varð að Brúðubílnum en sá hópur hélt hundruð sýningar víða um land fyrir börn, og gaf út tvær plötur.

 


Sigurður Kristinsson (1964-2024) – tónlistarmaður og kerfisfræðingur

Sigurður Kristinsson sem gekk undir nafninu Kollþrykktur var einn af þeim sem skipuðu Sniglabandið í upphafi en hann starfaði einnig sem gítar- og trommuleikari með hljómsveitum eins og KFUM & the andskotans, Hugmynd, S.B.K., Skyttunum, Stútungum og Mjölni svo aðeins nokkrar séu nefndar.

 

 


Vilberg Vilbergsson (1930-2024) – tónlistarmaður og rakari

Vilberg Valdal Vilbergsson var aldrei kallaður neitt annað en Villi Valli en hann var þekktur tónlistarmaður á Ísafirði og starfaði með fjölmörgum hljómsveitum þar. Hann lék með sveitum eins og M.G. tríóinu, S.V.O. tríóinu, Sexmönnum og svo sveitum í eigin nafni, s.s. Hljómsveit Villa Valla. Tvær plötur komu út í nafni Villa Valla.

 


Þorleifur Finnsson (1936-2024) – harmonikkuleikari

Þorleifur Finnsson harmonikkuleikari var virkur innan harmonikkusamfélagsins, m.a. var hann þar með eigin sveit auk þess sem hann starfaði með hljómsveit Félags Harmonikuunnenda í Reykjavík og Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar svo dæmi séu nefnd – hann gaf jafnframt út harmonikkuplötu í samstarfi við Guðjón.

 


Þorvaldur Halldórsson (1944-2024) – söngvari

Þorvaldur Halldórsson var auðvitað kunnastur fyrir sígild lög eins og Á sjó, Mig dregur þrá og Hún er svo sæt en hann söng og lék á bassa með fjölmörgum hljómsveitum eins og Busabandinu, Hljómsveit Ingimars Eydal, Hljómsveit Ólafs Gauks og Pónik. Þorvaldur gaf enn fremur út nokkrar sólóplötur og sumar þeirra höfðu að geyma kristilega tónlist.

 

 


Þórarinn Óskarsson (1930-2024) – tónlistarmaður

Þórarinn Óskarsson var þekktur básúnuleikari og af fyrstu kynslóð djasstónlistarmanna hér á landi. Hann starfrækti á sjötta áratugnum hljómsveit í eigin nafni og lék einnig með hljómsveitum Kristjáns Kristjánssonar og Karls Jónatanssonar en síðar lék hann með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Lúðrasveit Reykjavíkur og Stórsveit Öðlinganna svo einhverjar séu nefndar.