Tónlistarfólk sem lést á árinu 2025

Rétt eins og síðustu árin hefur Glatkistan nú við árslok 2025 tekið saman lista með tónlistarfólki sem hefur kvatt okkur á árinu, til að heiðra minningu þeirra en listinn hefur að þessu sinni að geyma nöfn tuttugu og þriggja manna og kvenna sem komu að íslenskri tónlist með margvíslegum og ólíkum hætti.

Anna Vilhjálms (1945-2025) – söngkona

Anna Vilhjálmsdóttir var þekkt söngkona á sjöunda áratugnum en söngferill hennar hófst þegar hún var aðeins 16 ára gömul. Síðar söng hún með fjölmörgum hljómsveitum og einnig inn á plötur lög eins og Ef þú giftist og Heimilisfriður ásamt Berta Möller, og Það er bara þú með Vilhjálmi Vilhjálmssyni. Anna bjó og starfaði í Bandaríkjunum um tíma en hélt svo uppteknum hætti sem söngkona fjölda hljómsveita hér heima síðar. Sólóplata hennar, Frá mér til þín kom út 1991 en þar er m.a. að finna lagið Fráskilin að vestan.

 


Árni Grétar Jóhannesson (1983-2025) – raftónlistarmaður og plötuútgefandi

Árni Grétar Jóhannesson raftónlistarmaður var öllu þekktari undir nafninu Futuregrapher en undir því nafni gaf hann út fjölda platna, m.a. ásamt Jóni Ólafssyni, hann hafði áður starfað með hljómsveitunum Equal og Tab 22. Árni Grétar var einnig afkastamikill útgefandi raftónlistar og starfrækti útgáfufyrirtækin Móatún, Möller records og Tom tom records í félagi við aðra en þær útgáfur sinntu fyrst og fremst grasrótinni.

 


Ásgeir Sigurðsson (1933-2025) – tónlistarfrömuður á Selfossi

Ásgeir Sigurðsson rakari og klarinettuleikari var eins konar faðir tónlistarstarfs á Selfossi en hann starfaði þar lengi sem kennari og skólastjóri tónlistarskólans, hann var jafnframt stofnandi og stjórnandi lúðrasveita og hornaflokka í bænum auk þess sem hann stjórnaði Karlakór Selfoss um árabil. Hann starfaði einnig með hljómsveitum s.s. Hljómsveit Óskars Guðmundssonar og Hljómsveit Sverris Garðarssonar. Ásgeir útsetti fjölda laga fyrir kóra og lúðrasveitir.

 


Bylgja Dís Gunnarsdóttir (1973-2025) – sópran söngkona

Bylgja Dís Gunnarsdóttir var sópran söngkona og formaður Kyrrðarbænasamtakanna, hún nam söng við Söngskólann í Reykjavík og síðar við Royal Scottish academy of music and drama þar sem hún lauk mastersnámi. Bylgja Dís söng nokkur óperuhlutverk, m.a. í La Traviata og Don Giovanni auk þess að syngja í tónleikauppfærslum á fjölmörgum kirkjulegum verkum, hún söng enn fremur oft á einsöngstónleikum og ásamt öðrum söngvurum. Bylgja Dís var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngkona ársins í flokki klassíkur og samtímatónlistar árið 2017.

 


Einar Ingi Jónsson (1957-2025) – gítarleikari

Einar Ingi Jónsson var gítarleikari í fjölmörgum hljómsveitum hér á árum áður og voru nokkrar þeirra nokkuð þekktar s.s. Tívolí/Þrumuvagninn, Foringjarnir og Drýsill, sem gáfu út plötur og vöktu nokkra athygli á níunda áratugnum en einnig lék Einar Ingi með hljómsveitum eins og Cobra, Demó, Reykjavík, Tíví, ASIA, Stormsveitinni og Músíkbandinu. Hann starfaði um tíma ásamt Eyjólfi bróður sínum undir nöfnunum Brothers og EJ-Rock project auk þess að koma oft fram sem trúbador en Einar Ingi samdi jafnframt lög og texta sjálfur.

 


Gestur Guðmundsson (1951-2025) – félagsfræðiprófessor

Dr. Gestur Guðmundsson félagsfræðiprófessor við Háskóla Íslands var poppfræðingur en hann var fyrstur til að rita sögu popptónlistar á Íslandi þegar hann sendi frá sér bókina Rokksaga Íslands: frá Sigga Johnny til Sykurmolanna árið 1990, hún hafði að geyma félagsfræðilega nálgun um íslenska dægurmenningu og tónlist en áður hafði hann gefið út í samstarfi við eiginkonu sína Kristínu Ólafsdóttur bók um skyld málefni – 68: hugarflug úr viðjum vanans (1987) sem fjallaði um 68 kynslóðina.

 


Gísli Þór Ólafsson (Gillon) (1979-2025) – tónlistarmaður og ljóðskáld

Bókmenntafræðingurinn og Sauðkrækingurinn Gísli Þór Ólafsson var ljóðskáld sem einnig gaf út eigin tónlist og texta undir nafninu Gillon en fimm plötur komu út í hans nafni – sú síðasta árið 2022 (Bláturnablús), auk fjölmargra ljóðabóka. Gísli Þór starfaði einnig sem bassaleikari hljómsveitarinnar Contalgen funeral en sú sveit gaf út tvær plötur með hann innanborðs. Gísli Þór lést eftir stutt veikindi.

 


Gunnlaugur Reynisson (1966-2025) – trúbador

Gunnlaugur Reynisson eða Gulli Reynis eins og hann var iðulega kallaður, var trúbador sem skemmti mikið í kringum aldamótin á stöðum eins og Rauða ljóninu, Nikkabar og Búálfinum á höfuðborgarsvæðinu en einnig töluvert úti á landi þar sem hann bjó og starfaði um tíma. Eftir að tvíburabróðir hans, Haraldur (Halli Reynis) lést var Gulli duglegur að halda minningu bróður síns á lofti, m.a. með tónleikahaldi og útgáfu tveggja platna sem m.a. höfðu að geyma efni eftir hann.

 


Gylfi Ægisson (1946-2025) – tónlistarmaður

Gylfi (Viðar) Ægisson var þekktur tónlistar- og myndlistarmaður en eftir hann liggja tugir þekktra laga og texta. Hér má nefna lög eins og Minningu um mann, Í sól og sumaryl, Stolt siglir fleyið mitt og Eyjan mín bjarta (þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja 1974) en tugir platna hafa komið út í nafni hans og með Áhöfninni á Halastjörnunni, bæði með tónlist og leiknum ævintýrum sem um tíma nutu mikilla vinsælda. Gylfi starfaði með fjölda hljómsveita á sínum yngri árum s.s. Börkum, Eymönnum og Tríó ´72 og í seinni tíð var hann einnig í tríóinu GRM sem vakti töluverða athygli.

 


Helgi Pétursson (1949-2025) – tónlistar- og fjölmiðlamaður

Helgi Pétursson eða bara Helgi P. var þekktur tónlistarmaður, hann starfaði lengst af sem söngvari og bassaleikari með Ríó tríóinu sem naut mikillar hylli á árum áður en það gaf út fjölda platna á sínum tíma við miklar vinsældir, hann sendi jafnframt frá sér tvær sólóplötur og kom við sögu sem söngvari og bassaleikari á fjölmörgum útgefnum plötum annars tónlistarfólks. Helgi starfaði lengi sem fjölmiðlamaður við blaðamennsku og dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi en hann var einnig menntaður kennari og í seinni tíð starfaði hann að félags- og baráttumálum aldraðra.

 


Ingólfur Þór Árnason (1976-2025) – tónlistarmaður

Tónlistarmaðurinn Ingólfur Þór Árnason var fjölhæfur í listsköpun sinni en hann var einnig ljóðskáld og myndlistarmaður, hann bjó víða um land og erlendis – síðast í Portúgal. Ingólfur Þór gekk sem tónlistarmaður undir nafninu Indigo (og um tíma Ingo) og gaf út nokkrar plötur undir því nafni um og eftir aldamót en verkefnið sem yfirleitt var sólóverkefni hans var einnig um tíma dúett og jafnvel tríó. Ingólfur vann einnig kvikmyndatónlist.

 


Jóhann Kristinsson (1953-2025) – bassaleikari

Jóhann Sævar Kristinsson flugstjóri var bassaleikari í nokkrum þekktum hljómsveitum hér áður fyrr, þekktust þeirra er án nokkurs vafa Flowers en þar tók Jóhann við bassanum af Sigurjóni Sighvatssyni og starfaði með sveitinni í nokkra mánuði áður en hún sameinaðist Hljómum undir nafninu Trúbrot. Jóhann átti einnig eftir að leika með hljómsveitinni Tilveru en áður hafði hann verið bassaleikari Opus 4 og fleiri sveitum, hann þótti efnilegur bassaleikari en hætti fljótlega í tónlistinni til að helga sig námi og öðrum störfum.

 


Jón Ásgeirsson (1928-2025) – tónskáld

Jón Ásgeirsson er meðal þekktustu tónskálda íslenskrar tónlistarsögu en eftir hann liggja þekkt sönglög eins og Maístjarnan, Hjá lygnri móðu og Vísur Vatnsenda-Rósa (Augun mín og augun þín), óperur eins og Þrymskviða og Galdra-Loftur svo dæmi séu nefnd en einnig fjölda hljómsveita- og kórverka, auk útsetninga af ýmsu tagi. Jón hafði stundað tónlistarnám hér heima og í Skotlandi og starfaði svo við kennslu, hljómsveita-, lúðrasveita- og kórstjórnun svo fátt eitt sé talið. Hann hlaut fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir tónlistarstarf sitt.

 


Jón Magnússon (Jojo) (1960-2025) – trúbador

Tónlistarmaðurinn Jón Magnússon eða Jojo / Jójó eins og hann var iðulega kallaður var þekktastur fyrir að standa trúbadoravaktina í Austurstræti daga jafnt sem nætur um árabil en hann kom reyndar mun víðar við með tónlist sína, hann samdi t.a.m. sjálfur tónlist sem komið hefur út á plötum og hann starfaði um margra ára skeið með pöbbahljómsveitum og sem götuspilari víða um Evrópulönd – frægt er t.d. þegar Bruce Springsteen tók lagið með honum á Strikinu í Kaupmannahöfn. Einnig hafa komið út plötur í nafni Jojo.

 


Jónas Ingimundarson (1944-2025) – píanóleikari

Jónas Ingimundarson var með þekktustu og virtustu píanóleikurum íslenskrar tónlistarsögu en hann lék inn á fjölmargar hljómplötur og á tónleikum bæði sem einleikari og undirleikari kóra og einsöngvara hér á landi og erlendis, hann fékkst enn fremur við kórstjórn og tónlistarkennslu um árabil. Jónas hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir árið 2001 og Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 1994 svo aðeins tvö dæmi séu nefnd um þær viðurkenningar sem honum hlotnaðist fyrir tónlistarstörf sín.

 


Kristinn Ingi Sigurjónsson (1956-2025) – bassaleikari

Kristinn Ingi Sigurjónsson var bassaleikari nokkurra þekktra hljómsveita á áttunda áratug síðustu aldar en þeirra þekktust var Deildarbungubræður sem gáfu út tvær plötur um miðjan áratuginn við nokkrar vinsældir með lögum eins og María draumadís, Nú er gaman og Stúlkan mín. Kristinn Ingi hafði þá einnig áður starfað með hljómsveitum eins og Stofnþeli og síðar með Fimm á Richter en sú sveit var langlíf í ballbransanum.

 


Orri Harðarson (1972-2025) – tónlistarmaður

Skagamaðurinn Orri Harðarson kom að tónlist með margvíslegum hætti en strax á unga aldri var hann byrjaður á semja tónlist og starfaði hann með fjölda hljómsveita á unglingsaldrinum. Fyrsta sólóplatan með frumsömdu efni leit dagsins ljós árið 1993 þegar hann var rétt um tvítugt og áður en yfir lauk voru þær orðnar fimm talsins auk einnar sem ekki hefur verið gefin út, einnig komu út nokkrar smáskífur með honum á netinu. Orri starfaði einnig lengi við upptökustjórn og önnur tónlistartengd hliðarverkefni.

 


Ólafur Garðarsson (1950-2025) – trommuleikari

Ólafur Garðarsson var kunnur trommuleikari og lék með ógrynni þekktra hljómsveita á sjöunda og áttunda áratugnum. Hér má nefna sveitir eins og Óðmenn, Tempó, Tilveru, Sálina, Trúbrot, Náttúru, Tóna, Celsius og Pónik en svo lék hann einnig með sveitum eins og Acropolis, Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar, Key to the heighway og Örnum svo nokkrar aðrar séu nefndar. Ólafur lék með hljómsveitum sínum inn á fjölmargar útgefnar plötur en einnig á plötum annarra listamanna.

 


Reynir Guðsteinsson (1933-2025) – einsöngvari

Guðbjörn Reynir Guðsteinsson skólastjóri úr Vestmannaeyjum söng með fjölmörgum kórum s.s. Karlakór Reykjavíkur, Maíkórnum, Kirkjukór Vestmannaeyja, Kirkjukór Bústaðasóknar, Selkórnum og Samkór Vestmannaeyja um ævi sína og söng stundum einsöng með þeim á tónleikum auk þess sem hann kom oft fram sem einsöngvari með undirleikara, hann kom einnig að kórstjórnun. Reynir gaf út sólóplötu árið 2002 en hún bar titilinn Ég er Gestur, en einnig er söng hans að finna á fáeinum öðrum plötum.

 


Sigríður Anna Þorgrímsdóttir (Anna Sigga) (1947-2025) – barnastjarna

Söngkonan Sigríður Anna Þorgrímsdóttir eða Anna Sigga eins og hún var venjulega kölluð á æskuárum sínum, var ein fyrsta íslenska barnastjarnan en hún söng ásamt vinkonu sinni Soffíu Árnadóttur nokkur lög á plötur sem nutu mikilla vinsælda á árunum í kringum 1960. Þetta voru lög eins og Snjókarlinn, Komdu með mér út, Sumar er í sveit, Órabelgur og Komdu niður, en þær stöllur komu heilmikið fram opinberlega á skemmtunum á þessum árum við miklar vinsældir.

 


Sigurður Björnsson (1932-2025) – óperusöngvari

Sigurður Björnsson óperusöngvari nam söng hér heima og í Þýskalandi þar sem hann starfaði um tíma í óperuhúsum sem og í Austurríki og söng reyndar mjög víða um lönd. Sigurður flutti heim til Íslands um miðjan áttunda áratuginn til að taka við stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands en hann átti eftir að syngja heillengi eftir það bæði sem einsöngvari og í óperuuppfærslum. Hann átti jafnframt eftir að starfa ötullega að félagsmálum tónlistarfólks með ýmsum hætti og hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir starf sitt. Aðeins ein smáskífa kom út í hans nafni en söng hans má þó heyra á fjölda platna.


Stefán Jónsson (Stebbi í Lúdó) (1942-2025) – rokksöngvari

Stefán Jónsson rokksöngvari var alla tíð kenndur við hljómsveitina Lúdó sextett (Lúdó & Stefán) en sú sveit naut gríðarmikilla vinsælda í kringum 1960, áður hafði hann slegið í gegn með SAS tríóinu með laginu um Jóa Jóns. Stefán varð einn vinsælasti rokksöngvari landsins og var þekktur fyrir lög eins og Því ekki að taka lífið létt og Laus og liðugur (Sigurður var sjómaður), hann söng með fleiri hljómsveitum á sjöunda áratugnum en dró sig í hlé um tíma en kom aftur fram í sviðsljósið með Lúdó á þeim áttunda og söng þá með sveitinni lög eins og Átján rauðar rósir, Ólsen ólsen og Halló Akureyri, sem öll urðu vinsæl.


Steindór Andersen (1954-2025) – kvæðamaður

Steindór Ingimar Andersen var virtur kvæðamaður en hann vann alla tíð að því að gera rímnakveðskap hátt undir höfði, hann var m.a. formaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar um árabil og heiðursfélagi þess félags. Steindór náði að tengja rímnakveðskap við tónlist mun yngra fólks með samstarfi sínu við Erp Eyvindarson, Hilmar Örn Hilmarsson og hljómsveitina Sigur rós, og náði með þeim hætti að vekja athygli fjölmargra á kveðskaparhefðinni. Nokkrar plötur komu út með Steindóri og í samstarfi hans við aðra tónlistarmenn.