Hip Razical (2004-07)

Hip Razical

Rokksveitin Hip Razical starfaði á Sauðárkróki snemma á þessari öld og tók tvívegis þátt í Músíktilraunum.

Sveitin var stofnuð árið 2004 og lék þá eitthvað opinberlega á heimaslóðum s.s. á Landsmóti UMFÍ sem haldið var um sumarið á Króknum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjir skipuðu sveitina í upphafi en hún mun hafa farið í gegnum þó nokkrar mannabreytingar meðan hún starfaði.

Vorið 2005 tóku þeir félagar þátt í Músíktilraunum í fyrra skiptið og var sveitin þá skipuð þeim Davíð Jónssyni gítarleikara, Rafni Júlíusi Jóhannssyni söngvara, Styrkári Snorrasyni trommuleikara, Snævari Erni Jónssyni bassaleikara og Arnari Þór Sigurðssyni hljómborðsleikara, Snævar var kjörinn besti bassaleikari tilraunanna en sveitin komst ekki áfram í úrslit keppninnar.

Hip Razical starfaði áfram en lék sem fyrr mestmegnis á heimaslóðum. Vorið 2007 var komið að því að sveitin reyndi aftur fyrir sér í Músíktilraunum en þá voru þeir Davíð gítarleikari og söngvari, Styrkár trommuleikari og Snævar bassaleikari enn i sveitinni en Jón Atli Magnússon gítarleikari hafði þá bæst í hópinn um veturinn í stað þeirra Arnars Þórs hljómborðsleikara og Rafns Júlíusar söngvara sem voru hættir. Sveitin komst að þessu sinni áfram í úrslit Músíktilraunanna en hafnaði ekki meðal efstu sveita. Hún starfaði eitthvað áfram eftir tilraunirnar, fór að öllum líkindum í hljóðver síðar um vorið og lék m.a. á rokktónleikum á kántríhátíð á Skagaströnd um sumarið en einn meðlimur sveitarinnar var þaðan. Svo virðist sem Hip Razical hafi hætt störfum fljótlega eftir það.