Hljómsveit Hauks Morthens (1962-91)

Hljómsveit Hauks Morthens

Stórsöngvarinn Haukur Morthens starfrækti hljómsveitir í eigin nafni um árabil, nánast sleitulaust á árunum 1962 til 1991 en hann lést ári síðar. Sveitir hans voru mis stórar og mismunandi eftir verkefninu hverju sinni en honum hélst ótrúlega vel á mannskap og sumir samstarfsmanna hans störfuðu með honum lengi.

Haukur Morthens var orðinn vel þekkt nafn í íslenskri tónlist en hann hafði frá árinu 1954 sent frá sér á þriðja tug smáskífna og var einn allra vinsælasti söngvari landsins þegar hann stofnaði sína fyrstu hljómsveit um áramótin 1961-62, um það leyti var að myndast eins konar tómarúm í reykvísku skemmtanalífi því ein vinælasta hljómsveit landsins KK-sextett var um það leyti að hætta störfum. Hljómsveit Hauks var ráðin til starfa í Klúbbnum en meðlimir hennar auk Hauks í upphafi voru þeir Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Örn Ármannsson gítarleikari, Sigurbjörn Ingþórsson bassaleikari og Jón Möller básúnu- og píanóleikari. Um sumarið 1962 fór þessi sveit til Finnlands þar sem hún lék á heimsmóti æskunnar eins og það var kallað, og Sovétríkjanna og fleiri landa í kjölfarið en þetta þótti mikil frægðarför. Veturinn eftir (1962-63) komu út fjórar plötur með Hauki þar sem hljómsveit hans lék undir en á þeim er m.a. að finna lögin Vinarkveðja, Í faðmi dalsins og Í hjarta þér sem nutu nokkurra vinsælda.

Hljómsveit Hauks starfaði áfram í Klúbbnum en sumarið 1963 fór hún aftur utan og lék nú fyrst í Svíþjóð þar sem hún gekk undir nafninu Haukur Morthens and his Combo en þaðan fór hún til Finnlands þar sem hún lék mjög víða – einnig mun sveitin hafa leikið aftur í Sovétríkjunum en hún var allt sumarið í þessari för enda var Haukur alltaf vel kynntur erlendis og kom t.d. mjög oft fram í Kaupmannahöfn þar sem hann naut nokkurra vinsælda. Sveitin hafði einnig komið við í Noregi í ferðinni en þar var hljóðrituð ein tveggja laga skífa (Tóta litla tindilfætt / Hlíðin mín fríða) sem kom svo út haustið og um svipað leyti kom einnig út sextán laga breiðskífa á vegum Fálkans – Haukur Morthens syngur, sem hafði að geyma tíu áður útgefin lög auk sex laga þar sem sveitin hafði leikið með Hauki.

Um þetta leyti höfðu orðið þær breytingar á hljómsveitinni að Reynir Sigurðsson hafði tekið við af Jóni píanóleikara, Hjörleifur Björnsson var nú tekinn við bassanum af Sigurbirni og Gunnar Ormslev saxófónleikari var nú kominn í stað Arnar gítarleikara, Guðmundur Steingrímsson var enn á trommunum. Örn gítarleikari kom aftur inn í hljómsveitina um haustið þegar hún kom heim en hann leysti þá Hjörleif bassaleikara af og litlu síðar kom Carl Möller píanóleikari inn í sveitina í stað Gunnars Ormslev en Carl lék einnig á bassa. Um haustið gerðist hljómsveit Hauks húshljómsveit í Glaumbæ og lék þar fram að áramótum en deilur um ógreidd laun urðu til þess að sveitin hætti að leika þar í upphafi árs 1964, hætti reyndar á miðjum dansleik.

Haukur og félagar 1966

Svo virðist sem sveitin hafi í kjölfar þessa hætt störfum en Haukur hafði stofnað nýja sveit í mars 1964 sem fór utan til Danmerkur en þá skipuðu hana með Hauki þeir Carl Möller píanóleikari, Alfreð Alfreðsson trommuleikari, Donald Walker (Dómald Friðriksson) bassaleikari og Örn Ármannsson gítarleikari sem áður hafði starfað með Hauki og sveit hans. Sveitin lék þannig skipuð á skemmtistaðnum Eskalon í Kaupmannahöfn í um tvo mánuði og lék einnig í Noregi, og á leiðinni heim lék sveitin í hálfan mánuð í Færeyjum áður en hún kom heim snemma sumars – þess má geta að hjónakornin Ólafur Gaukur Þórhallsson og Svanhildur Jakobsdóttir komu fram með sveitinni í Færeyjum. Hljómsveitin lék aðallega úti á landsbyggðinni um sumarið, m.a. á sumarhátíðum framsóknarflokksins en Haukur hafði þá ekki sungið úti á landi um langt árabil. Tvær smáskífur í viðbót komu svo út síðla sumars með Hauki þar sem hljómsveitin lék með honum.

Lítið fór fyrir sveitinni það sem eftir var árs enda fór Haukur þá aftur utan, fyrst til Finnlands og síðan til Kaupmannahafnar þar sem hann hljóðritaði jólaplötuna Hátíð í bæ en hljómsveit hans var þar hvergi nálægt, hún tók ekki aftur til starfa fyrr en á nýju ári – vorið 1965 en sveitin fór þá um sumarið til Bandaríkjanna í fyrsta sinn til að leika fyrir Vestur-Íslendinga. Þegar hún kom aftur heim var hún fastráðin í Sigtúni og lék þar m.a. á árshátíðum og slíkum skemmtunum auk almennra dansleikja en hljómsveitir í þessum anda fóru nú nokkuð halloka fyrir yngri svokölluðu bítlasveitum – þeir félagar reyndu þó eftir fremsta megni að halda í við tískuna og voru m.a. með bítlalög á prógrammi sínu auk almennrar danstónlistar þess tíma, til að dragast ekki mikið aftur úr. Sveitin fór aftur út á landsbyggðina um sumarið líkt og sumarið á undan og þegar haustaði var ferðinni aftur heitið í Sigtún og þar starfaði sveitin veturinn 1965-66.

Ekki liggur fyrir hverjir höfðu skipað hljómsveit Hauks á þessum tíma en þegar sveitin flutti sig um set vorið 1966 og gerðist húshljómsveit í Klúbbnum voru Magnús Pétursson píanó- og orgelleikari, Rúnar Georgsson saxófón- og flautuleikari, Hans Kragh trommuleikari og Ormar Þorgrímsson bassaleikari liðsmenn hennar ásamt Hauki sem söng sem endranær, á þeim tíma hafði Benedikt Pálsson trommuleikari eitthvað leikið með sveitinni en ekki liggur fyrir hvenær það var þó nákvæmlega – líklega hafði þá Jón Páll Bjarnason gítarleikari þá eitthvað starfað með henni einnig.

Hljómsveit Hauks 1969

Haukur og félagar fluttu sig smám saman á önnur mið í kjölfar bítlabyltingarinnar, sveitin lék í Klúbbnum fram á vorið 1967 en flutti sig þá yfir á Hótel Borg þar sem söngvarinn Al Bishop kom nokkuð fram með henni, og einnig komu fleiri gestasöngvarar fram með sveitinni bæði íslenskir og erlendir. Um haustið voru Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Helgi Kristjánsson bassaleikari, Magnús Pétursson píanóleikari og Edwin Kaaber gítarleikari í sveitinni en Gunnar Ársælsson gítarleikari hafði þá einnig eitthvað komið fram með henni. Einhverjar frekari breytingar urðu á henni, t.d. lék Eyþór Þorláksson með þeim félögum um tíma. Sveitin var mestmegnis á Borginni en voru einnig eitthvað á Hótel Sögu, líklega til að leysa Ragnar Bjarnason og félaga af yfir sumartímann en sumarið 1968 fór hljómsveit Hauks um landsbyggðina og lék þá á nokkrum héraðsmótum. Það sama haust kom út breiðskífa með söngvaranum sem bar heitið Með beztu kveðju en á henni lék hljómsveitin undir stjórn Eyþórs gítarleikara, auk danskra hljóðfæraleikara, platan var hljóðrituð í Kaupmannahöfn.

Hljómsveitin starfaði eitthvað stopulla næstu misserin enda hætti Haukur að starfa um það leyti sem atvinnutónlistarmaður og sneri sér að öðru, árið 1969 lék sveitin í aðeins fáein skipti og virðist svo ekkert starfa fyrr en um haustið 1970 og lék þá fremur sjaldan og mest á sjálfstæðum skemmtunum – þá skipuðu sveitina þeir Guðmundur Emilsson píanóleikari, Eyþór Þorláksson gítarleikari og Gunnar Ormslev saxófónleikari og gekk hún þá undir nafninu Tríó Hauks Morthens. Á einhverjum tímapunkti var Sverrir Sveinsson bassaleikari kominn í tríóið en svo virðist sem á þessum árum hafi Haukur aðeins sinnt tilfallandi verkefnum og fengið hina og þessa með sér í þau. Sumarið 1972 leysti hljómsveit í nafni Hauks Ragnar Bjarnason og hljómsveit hans af á Hótel Sögu og mun það hafa verið níu manna sveit, engar upplýsingar er þó að finna um hverjir skipuðu hana né heldur hverjir skipuðu sveit hans sem í kjölfarið um haustið lék í Glæsibæ en sú útgáfa innihélt sjö meðlimi, Wilma Reading söng með þeirri sveit um skeið.

Hljómsveit Hauks var heldur virkari í kjölfarið, hún starfaði í Glæsibæ fram á mitt sumar 1973 en lék einnig vestur í New York á Íslendingafagnaði þar sem Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Ormslev, Ómar Axelsson og Elfar Berg píanóleikari léku með Hauki. Svipuð skipan var á sveitinni sumarið 1974 þegar hún var í Súlnasal Hótel Sögu, nema að Árni Scheving var þá kominn í stað Elfars. Sú útgáfa sveitarinnar starfaði eitthvað áfram og lék m.a. eitthvað í Þjóðleikhúskjallaranum um haustið en eftir það virðist sem Haukur og félagar dragi smám saman seglin enda voru þeir komnir á miðjan aldur og atvinnutækifærin orðin færri. Sveitin lék á Hótel Sögu sumarið 1975 þar sem Linda Walker söng með sveitinni ásamt Hauki en þar virðist hafa verið um sextett að ræða, Ári síðar, sumarið 1976 birtist sveitin aftur á Hótel Borg og lék þar um nokkuð langa hríð eða fram á haustið 1977 þegar hún færði sig yfir á Sögu og lék þar í nokkrar vikur en hætti svo störfum. Upplýsingar um þetta tímabil eru mjög takmarkaðar og er Carl Möller píanóleikari sá eini sem liggur fyrir að hafi leikið með sveitinni um það leyti.

Hljómsveit Hauks Morthens á áttunda áratugnum

Næstu árin starfaði hljómsveitin einvörðungu í tengslum við söngverkefni Hauks erlendis enda fór nú í hönd tímabil (í kringum 1980) þar sem hann átti í samstarfi við hljómsveitina Mezzoforte – unga tónlistarmenn sem Haukur gaf út plötu með. Hljómsveit Hauks fór þó t.d. vestur um haf til Bandaríkjanna til að leika á þorrablótum Íslendinga 1978 og 79, og svo til Kanada árið 1982 en Haukur var þá gerður að heiðursborgara í Winnipeg, þá var sveit hans m.a. skipuð gamalreyndum félögum hans s.s. Guðmundi Steingrímssyni trommuleikara, Eyþóri Þorlákssyni gítarleikara og Reyni Jónassyni harmonikku- og saxófónleikara, og um haustið þegar sveitin lékí nokkur skipti á skemmtistaðnum Broadway var Ómar Axelsson bassaleikari einnig með í för sem og Guðni Þ. Guðmundsson píanóleikari.

Haustið 1983 lék sveit í nafni Hauks á veitingastaðnum Naustinu og var þar á ferð líklega sami kjarni og oft áður, Guðmundur á trommum, Eyþór gítarleikari og Ómar bassaleikari, sami hópur skipaði sveitina á sama stað vorið á eftir en snemma árs 1984 hafði sveitin tekið enn eitt þorrablótið fyrir Íslendinga í Bandaríkjunum, oftast nær léku þeir í New York á þessum ferðum sínum en einnig eru heimildir um að Haukur og félagar hafi skemmt í Chicago og Los Angeles.

Svo virðist sem hljómsveitin hafi leikið yfir sumartímann í nokkur ár í Skíðaskálanum í Hveradölum og þar naut hún nokkurra vinsælda þótt ekki færi það mjög hátt í auglýsingum dagblaða á þeim tíma. Fréttaflutningur var þeim mun meiri þegar sveitin lék erlendis og sumarið 1987 lék hún í Kaupmannahöfn eins og oft áður en meðlimir sveitarinnar þá voru Guiðmundur trymbill, Gunnar Ringsted gítarleikari, Gunnar Bernburg bassaleikari, Sæbjörn Jónsson trompetleikari, Carl Möller píanóleikari og Einar Bragi Bragason saxófónleikari og svo auðvitað Haukur sjálfur svo um fremur stóra sveit var að ræða. Sumarið 1988 lék sveitin á tónlistarfestivali í Þýskalandi en þá var um að ræða miklu minni sveit, reyndar var þetta í raun Tríó Guðmundar Ingólfssonar – þeir Guðmundur trommuleikari, nafni hans Ingólfsson píanóleikari og Þórður Högnason kontrabassaleikari, og á leiðinni heim til Íslands kom sveitin við í Færeyjum og lék þar einnig.

Árið 1989 voru tónlistarsýningar á Broadway orðnar feikivinsælar, þar voru gömlu söngstjörnurnar frá sjötta og sjöunda áratugnum dregnar aftur fram í dagsljósið og meðal þeirra var Haukur og hljómsveit hans, í auglýsingum frá Broadway er reyndar talað um Stórhljómsveit Hauks Morthens en meðlimir þeirrar útgáfu af sveitinni voru Reynir Sigurðsson víbrafón- og slagverksleikari sem titlaður var hljómsveitarstjóri, Árni Elfar píanóleikari, Gunnar Hrafnsson bassaleikari, Rúnar Georgsson saxófónleikari, Edwin Kaaber gítarleikari og svo auðvitað Guðmundur Steingrímsson trommuleikari.

Hljómsveit Hauks Morthens

Haukur var þarna kominn á sjötugs aldur og var ekkert á leið með að hætta en örlögin tóku svo í taumana að hann varð ekki langlífur því hann veiktist af lungnakrabbameini – söngvarinn sem aldrei reykti en stóð allan sinn feril á reykfylltu sviði samkomuhúsa og skemmtistaða. Hann söng eitthvað fram á tíunda áratuginn en eðlilega fækkaði þeim skiptum sem hann kom fram með hljómsveit sinni, sveit hans kom fram með honum 1990 og 91 en í litlum mæli og líklega kom hún fram í síðasta skipti í hans nafni haustið 1991 en Haukur lést um ári síðar. Engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu sveitina þessi síðustu skipti en reikna má með að þar hafi verið á ferð að einhverju leyti þeir hinir sömu og staðið höfðu vaktina með honum mest alla tíð, að minnsta kosti Guðmundur trommuleikari.

Hér að ofan hefur saga hljómsveitar Hauks Morthes verið rakin eins og hægt er m.t.t. þeirra heimilda sem tiltækar eru, sums staðar eru göt í þeirri umfjöllun a.m.k. hvað liðsmenn sveitarinnar varðar en ljóst er að mun fleiri léku með sveit Hauks er hér að ofan eru nefndir, heimildir eru t.a.m. um að Þorkell Snævar Árnason gítarleikari, Magnús Stefánsson trommuleikari, Hilmar Arnar Hilmarsson gítarleikari og Magnús Eiríksson gítarleikari hafi á einhverjum tímapunktum leikið með hljómsveit hans en hvenær liggur þó ekki fyrir.

Efni á plötum