
Óson
Hljómsveitin Óson (einnig ritað Ozon) starfaði í Flóanum í Árnessýslu á árunum 1986 til 90.
Sveitin var stofnuð 1986 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Ingólfur Arnar Þorvaldsson trommuleikari, Jónas Már Hreggviðsson bassaleikari og Hreinn Óskarsson gítarleikari og söngvari en einnig var Jón Elías Gunnlaugsson meðal meðlima sveitarinnar fyrsta árið. Árið 1988 urðu þær breytingar á Óson að Guðjón Helgi Ólafsson söngvari og Eric Jón Erlingsson gítarleikari bættust í hópinn, Gestur Guðjónsson kom einnig stöku sinnum fram með sveitinni þegar hann leysti Guðjón söngvara af.
Óson lék við ýmis tækifæri s.s. innan Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi en flestir meðlimir sveitarinnar voru þar við nám, en einnig lék hún t.a.m. í Gjánni á Selfossi og á almennum dansleikjum. Sveitin mun hafa leikið hefðbundna sveitaballatónlist í bland við sýru- og Suðurríkjarokk en Eric sem alist hafði upp í Louisiana kynnti öðrum sveitarmeðlimum þá tónlist sem ku hafa verið æfð á fullum styrk í félagsheimilinu Þingborg þar sem Óson hafði æfingaaðstöðu. Eitthvað slæddist með af frumsömdu efni í prógramm sveitarinnar en ekkert liggur þó útgefið eftir hana.
Óson starfaði til ársins 1990 en hún hætti þá störfum og meðlimir sveitarinnar sneru sér að öðrum verkefnum.














































