Tónaútgáfan [útgáfufyrirtæki] (1967-84)

Pálmi Stefánsson og Jón Ármannsson

Útgáfufyrirtækið Tónaútgáfan var starfrækt norðan heiða vel á annan áratug og sumar af þekktustu og vinsælustu plötum íslenskrar tónlistarsögu komu út hjá fyrirtækinu.

Það var Pálmi Stefánsson á Akureyri sem stofnaði Tónaútgáfuna haustið 1967 en hann hafði þá í um eitt ár starfrækt þar í bæ verslunina Tónabúðina sem m.a. hafði úrval hljómplatna í boði, hins vegar reyndist honum erfitt að selja íslenskar plötur í verslun sinni þar sem önnur verslun í bænum hafði gert samning um einkasölu á Akureyri við innlendar plötuútgáfur, og það var hluti ástæðu þess að hann fór út í útgáfu sjálfur, ásamt Jóni Ármannssyni sem starfaði og bjó í Reykjavík. Þeir félagar störfuðu í fáein ár saman en síðan skildu leiðir og Pálmi keypti Jón út úr fyrirtækinu.

Fyrsta platan sem leit dagsins ljós hjá Tónaútgáfunni var smáskífa með hljómsveitinni Póló en Pálmi lék einmitt með þeirri sveit, í kjölfarið fylgdi útgáfa á fjölda smáskífna og síðar komu einnig út fjölmargar breiðskífur.

Fyrst um sinn voru plötur Tónaútgáfunnar teknar upp að mestu leyti hjá Ríkisútvarpinu en haustið 1974 hafði Pálmi fjárfest í nýjum hljóðupptökutækjum og opnaði hljóðver að Norðurgötu 2b en húsnæðið keypti hann sjálfur. Þar voru einhverjar af plötunum teknar upp síðar, Ríkisútvarpið leigði síðar hluta af húsnæðinu af Pálma sem útsendingaaðstöðu á Akureyri.

Tónaútgáfan gerði samning við breskt útgáfufyrirtæki um að kaupa af því tilbúinn hljóðfæraleik af nýjum vinsælum lögum til að gefa út á fjögurra til sex laga plötum að breskri fyrirmynd, sem fyrirhugað var að íslenskir söngvarar myndu syngja íslenska texta við. Ekki varð af útgáfu slíkra platna en nokkuð varð þó af því að útgáfan nýtti sér þetta erlenda undirspil, til að mynda á fyrstu smáskífu Björgvins Halldórssonar sem hafði að geyma lagið Þó líði ár og öld.

Logo Tónaútgáfunnar

Á vegum Tónaútgáfunnar komu út á sjötta tug platna, stórra og lítilla, allt til ársins 1984 og eru nokkrar þeirra meðal þekktustu platna sem hér hafa verið gefnar út, þar má nefna plötuna …lifun með Trúbrot, en meðal annarra má nefna plötur með Flowers, Ævintýri, Pónik og Einari, Hljómsveit Ingimars Eydal, Júdas, Ragnari Bjarnasyni, Jóhanni Konráðssyni og Örvari Kristjánssyni.

Þess má einnig geta að fyrsta poppsafnplatan sem út kom hérlendis var hjá Tónaútgáfunni, hún hét Popfestival ´70. Aukinheldur sendi útgáfan frá sér safnsnælduna Úrval 1967-1970 árið 1974 en hún hafði að geyma úrval laga sem komið höfðu út á smáskífum.