Afmælisbörn 31. júlí 2015

Rut Ingólfsdóttir

Rut Ingólfsdóttir

Glatkistan hefur tvær tónlistarkonur á skrá sinni á þessum degi, þær eru nöfnur:

Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari er sjötug í dag. Rut nam sína tónlist fyrst hér heima en síðan í Svíþjóð og Belgíu. Hún hefur starfað sem konsertmeistari m.a. með Karmmersveit Reykjavíkur en hefur einnig starfað með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Pólýfónkórnum og með Bachsveitinni í Skálholti svo dæmi séu tekin. Rut hefur einnig haldið fjölda einleikstónleika, gefið út sólóplötur og í félagi með öðrum, auk þess að kenna við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Önnur Rut, söngkonan og kórstjórnandinn Rut (Little) Magnússon átti einnig afmæli þennan dag. Rut (1935-2010) kom upphaflega frá Englandi, giftist íslenskum tónlistarmanni (Jósef Magnússyni) og starfaði hér um árabil. Hún tók þátt í uppfærslum á ýmsum óperuverkum og öðrum þekktum verkum, stjórnaði t.a.m. Drengjakór Sjónvarpsins, Háskólakórnum, Liljukórnum og Hljómeyki svo nokkrir kórar séu nefndir, og kenndi jafnframt söng við Söngskólann og Tónlistarskólann í Reykjavík.