Afmælisbörn 4. september 2015

Mugison Airwaves 2014 (2)

Mugison

Fjögur tónlistartengd afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag en öll teljast þau vera stór nöfn:

Fyrstan skal telja Hörð Torfason söngvaskáld en hann er sjötugur á þessum degi. Á þriðja tug platna hafa komið út með Herði og hafa mörg þeirra orðið þekkt, þeirra á meðal má nefna Þú ert sjálfur Guðjón, Ég leitaði blárra blóma, Litli fugl og Brekkan, en mörg laga hans má heyra á tónleikaplötu sem gefin var út honum til heiðurs 2006. Hörður hefur um áratuga skeið verið í fremstu röð fyrir baráttu samkynhneigðra hér á landi.

Björgvin Gíslason gítarleikari er sextíu og fjögurra ára gamall. Hann er eitt af undrabörnunum í tónlistinni, að mestu sjálfmenntaður og leikur á flest hljóðfæri þótt strengjahljóðfæri séu hans aðalverkfæri. Björgvin lék með flestum hljómsveitum sem eitthvað kvað að á áttunda áratugnum og ógrynni annarra sveita, hér eru aðeins fáeinar upptaldar; Poker, Náttúra, Zoo, Pelican, Opus 4, Sjálfsmorðssveitin, Paradís og Pops. Auk þess hefur hann gefið út nokkrar sólóplötur sem innihalda þekkt lög s.s. Afi (sungið af Björk) og L.M. Ericsson. Björgvin gaf nýlega út plötuna Slettur.

Súðvíkingurinn Örn Elías Guðmundsson eða bara Mugison er 39 ára. Mugison hefur sent frá sér fjöldann allan af sólóplötum og enn fleiri lög sem slegið hafa í gegn. Hann hafði að mestu flutt efni sitt á ensku þar til síðasta plata hans kom út (Haglél (2011)) en sú plata sló algjörlega í gegn og seldist í um 30.000 eintökum. Þótt hann sé fyrst og fremst sólóisti hefur hann verið í ýmsum hljómsveitum og samstarfsverkefnum eins og Dísel Sæmi, Joseph and Henry Wilson Limited established 1833, Unaðsdalur, Cod og Áhöfnin á Húna II.

Borgfirðingurinn Númi Þorbergs(son) átti einnig afmæli á þessum degi. Númi (fæddur 1911) var einn þekktasti textahöfundur Íslands á síðustu öld og þekkja flestir texta sem hann samdi, meðal þeirra eru Nú liggur vel á mér, Í landhelginni, Laus og liðugur (Sigurður var sjómaður) og Landleguvalsinn. Númi gegndi einnig stöðu dansstjóra á skemmtistöðum borgarinnar á árum áður. Hann lést 1999.