
Elly Vilhjálms
Glatkistan fagnar um þetta leyti tveggja ára afmæli en vefurinn fór í loftið í byrjun nóvember 2014.
Gagnagrunnur vefsíðunnar hefur fengið mikla athygli en flestar veffærslur síðunnar eru tengdar honum á einn eða annan hátt, færslur Glatkistunnar munu ná þremur þúsundum fyrir árslok.
Tónlistarfólk hefur verið afar duglegt við að senda athugasemdir, viðbætur, leiðréttingar, myndefni og fleira sem gagnast gagnagrunnsskráningunni, það er dýrmætt og hjálpar til við varðveislu þessa menningarverðmæta – allt slíkt er þegið með miklum þökkum.
Eins og margir hafa áttað sig á hefur gagnagrunnsvinnan einkum og aðallega snúist um tónlistarfólk /-efni frá því fyrir aldamótin en þegar fram líða stundir mun bætast við nýrra efni. Fjölmargar fyrirspurnir hafa einnmitt borist varðandi yngra efni sbr. „af hverju er ekkert um Bubba?“, „hvar eru Greifarnir?“, „á ekkert að skrifa um Glowie?“ o.s.frv., en skýringin er auðvitað sú að það tónlistarfólk er enn starfandi og því myndi það þýða endalausar uppfærslur á veftexta. Netið er aukinheldur fullt af efni um tónlistarfólk samtímans.
Um þrjátíu og fimm þúsund gestir hafa komið inn á Glatkistuna síðan vefurinn fór í loftið, megnið af þeim heimsóknum koma vitaskuld frá Íslandi en annars hafa gestir síðunnar komið frá á annað hundrað þjóðlanda heimsins.
Vinsælasta og mest lesna efnið í gagnagrunninum til þessa er Elly Vilhjálms og Ríó tríó en fast á hæla þeirra koma Halli og Laddi, Risaeðlan, Edda Heiðrún Backman, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, BG & Ingibjörg, Páll Pampichler Pálsson, Amon Ra, Roð, Orghestar og E-X svo nokkur dæmi séu nefnd, af þessu má sjá að áhugi lesenda er ekki bundin við eina tegund tónlist heldur er fjölbreytnin mikil.
Nú er verið að vinna í bókstafnum I og verða næstu færslur í gagnagrunninum bundnar við þann staf. Enn fremur er stefnt að því að Texta-síðurnar verði orðnar virkar á næstu vikum, jafnvel fyrir áramót.
Glatkistan þakkar viðtökur lesenda á þessu tveggja ára afmæli síðunnar.














































