Útvarp Matthildur (1970-73)

Þórarinn Eldjárn, Hrafn Gunnlaugsson og Davíð Oddsson

Útvarpsþátturinn Útvarp Matthildur var á dagskrá Ríkisútvarpsins sumrin 1970-73 og var þá nýstárlegur skemmtiþáttur í umsjón ungra háskólanema, þeirra Davíðs Oddssonar, Hrafns Gunnlaugssonar og Þórarins Eldjárn. Þeir urðu síðar allir þjóðþekktir á allt öðrum vettvangi.

Úrval úr þáttunum var gefið út á plötu 1972 af Svavari Gests og endurútgefið 2001. Á plötunni má einnig heyra í þekktum gestaleikurum.

Reyndar voru þeir Davíð og Hrafn einnig viðloðandi plötuútgáfu af öðru tagi á þessum tíma því þeir starfræktu útgáfufyrirtækið Ljúfuna sem gaf út eina plötu með Hannesi Jóni Hannessyni, það fyrirtæki mun þó ekki hafa verið tengt Útvarp Matthildi þótt einhverjir héldu það.

Þess má einnig geta að í verkfalli ríkisstarfsmanna 1977 ráku tveir fjórtán ára félagar, Jón Axel Ólafsson og Gunnlaugur Helgason, ólöglega útvarpsstöð í nokkra daga undir nafninu Útvarp Matthildur.

Efni á plötum