
Útúrdúr
Keflvíska hljómsveitin Útúrdúr starfaði í um eitt og hálft ár og skartaði m.a. söngkonu sem átti eftir að gera garðinn frægan síðar meir.
Útúrdúr var stofnuð 1987 og tók þátt í hljómsveitakeppni á útihátíð sem haldin var um verslunarmannahelgina í Húsafelli. Engar sögur fara af frammistöðu sveitarinnar þar en vorið eftir (1988) var sveitin meðal þeirra sem kepptu í Músíktilraunum Tónabæjar. Meðlimir Útúrdúrs voru þá Sverrir Ásmundsson bassaleikari, Bergur Sigurðsson gítarleikari, Sturla Ólafsson trommuleikari og Ragnheiður Eiríksdóttir söngkona en hún átti síðar eftir að verða þekktari sem Heiða í Unun eða Heiða trúbador. Sveitin komst ekki áfram í úrslit Músíktilraunanna.
Um haustið 1988 kom Útúrdúr fram í unglingaþættinum Annir og appelsínur í Ríkissjónvarpinu en sveitin lagði upp laupana um það leyti eða stuttu síðar.