Þuríður Baxter (1945-2012)

Þuríður Baxter

Þuríður Baxter mezzósópran hafði verið þekkt fyrir ýmislegt annað en söng þegar hún birtist með fyrri plötu sína árið 1995 en hún hafði fram að því verið kunnust fyrir þýðingar sínar.

Þuríður fæddist 1945 í Reykjavík, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og menntaði sig m.a. í frönsku, íslensku og bókmenntafræði áður en hún hóf að fást við þýðingar, einkum á barnabókum og má þ.a. meðal annarra nefna bækurnar um Barbapapa og Gúmmí Tarzan en einnig má þess geta að hún þýddi fyrstu bókina um Viggó viðutan.

Hún starfaði ennfremur við kennslu og útgáfustörf hjá Iðunni og Máli og menningu áður en hún gekk til liðs við Samtök tónskálda og eigendur flutningsréttar (STEF) og hóf störf þar sem skrifstofustjóri árið 1990.

Um svipað leyti eða rétt áður (haustið 1989) hóf Þuríður söngnám mörgum að óvörum og 1993 kom hún fyrst fram opinberlega sem söngkona þegar hún hélt einleikstónleika, og söng síðan nokkuð á tónleikum í kjölfarið. Hún mun einnig hafa sungið með kórum, þeirra á meðal eru hér nefndir Þjóðleikhúskórinn, Söngsveitin Fílharmónía og Heimskórinn.

Það var síðan árið 1995 sem hún gaf út plötuna Mitt er þitt en hún stóð þá á fimmtugu. Upptökur fóru fram í Fella- og Hólakirkju undir stjórn Sigurðar Rúnars Jónssonar. Guðný Aðalsteinsdóttir lék undir á píanó en lögin komu úr ýmsum áttum, platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Það var svo haustið 2004 sem önnur plata með söng Þuríðar leit dagsins ljós en hún hlaut titilinn Tólf sönglög. Afar litlar upplýsingar er hins vegar að finna um þá plötu.

Þuríður lést langt fyrir aldur fram úr krabbameini árið 2012, þá aðeins sextíu og sjö ára gömul.

Efni á plötum