Ólafur Pétursson (1921-92)

Ólafur Pétursson

Ólafur Pétursson var kunnur tónlistarmaður fyrir og um miðja síðustu öld, og starfaði þá með ýmsum af þekktustu hljómsveitum landsins.

Ólafur var Reykvíkingur og bjó þar alla sína ævi, hann fæddist 1921 og lærði ungur á orgel en síðar urðu harmonikka, saxófónn og klarinetta hljóðfæri hans, harmonikkan var þó alltaf í aðalhlutverki.

Fyrstu heimildir um opinbera spilamennsku Ólafs er að finna frá árinu 1940 en þá lék hann, sem nemandi í Iðnskólanum í Reykjavík, á skemmtun á vegum skólans. Hann átti síðan eftir að leika með ýmsum hljómsveitum s.s. Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar, Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar, KK-sextett, Hljómsveit Jónasar Dagbjartssonar, Hljómsveit Þóris Jónssonar og Hljómsveit Aage Lorange en með síðast töldu sveitinni lék hann inn á plötu með Svavari Lárussyni. Ennfremur starfrækti Ólafur eigin hljómsveit á sjötta áratugnum. Hann varð einna fyrstur til að tileinka sér notkun hljóðnema við harmonikkuleik hérlendis en það var árið 1949 og þótti mikil nýlunda.

Ein þriggja laga 78 snúninga plata kom út með harmonikkuleik Ólafs, hún kom út árið 1952 á vegum Hljóðfæraverslunar Sigríðar Helgadóttur.

Ólafur kenndi á harmonikku um tíma en hann hætti að mestu að leika tónlist um miðjan sjötta áratuginn eða um svipað leyti og platan hans kom út.

Ólafur lést í árslok 1992, ríflega sjötugur að aldri en hann hafði þá átt í nokkrum veikindum.

Efni á plötum