Barnakór Vesturbæjarskóla (1977-2011)

Kór starfaði í áratugi við Vesturbæjarskóla, ýmist nefndur Barnakór, Skólakór eða bara Kór Vesturbæjarskóla.

Elstu heimildir um þennan kór eru frá árinu 1977 en vel má vera að hann hafi verið stofnaður fyrr, það var Ragnhildur Gísladóttir sem stjórnaði kórnum á þessum fyrstu árum og líklega allt til ársins 1980 eða lengur. Árið 1979 varð kórinn reyndar svo frægur að syngja á plötunni Glámur og Skrámur í sjöunda himni en Ragnhildur samdi einmitt tónlistina á þeirri plötu. Þess má geta að söngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson var meðlimur kórsins á þessum árum.

Á árunum milli 1980 og 90 er engar upplýsingar að finna um Barnakór Vesturbæjarskóla og því allt eins líklegt að hann hafi ekki verið starfandi.

Árið 1990 var Vigdís Esradóttir stjórnandi kórsins, hversu lengi hún stjórnaði honum er ekki ljóst en 1994 var Sesselja Kristjánsdóttir við stjórnvölinn, þá kom til sögunnar Kristín Valsdóttir en einnig voru Hulda Guðrún Geirsdóttir og Svava Þórðardóttir meðal stjórnenda til aldamóta.

Á árunum 2000 til 2006 er ekki heldur neinar heimildir að finna um Barnakór Vesturbæjarskóla en Nanna Hlíf Ingvadóttir var stjórnandi kórsins 2007 til 2009, þá tók Hilmar Örn Agnarsson við og síðan Sigríður Soffía Hafliðadóttir. Engar upplýsingar er hins vegar að finna um kórinn eftir 2011 og því eru allar líkur á að sögu hans ljúki það ár. Allar frekari upplýsingar um það eru þó vel þegnar.