
Selma Björnsdóttir
Hvorki fleiri né færri en fimm afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag:
Bjartmar A. Guðlaugsson tónlistarmaður og listmálari er sextíu og sex ára. Bjartmar þekkja allir og lög hans og texta en hann hefur gefið út á annan tug sólóplatna og í félagi við aðra, lög eins og Fimmtán ára á föstu, Sumarliði er fullur, Týnda kynslóðin, Járnkallinn, Velkomin á bísann og Súrmjólk í hádeginu þekkja allir en þess má einnig geta að Bjartmar var hér fyrrum trommuleikari í nokkrum hljómsveitum, s.s. Logum, Dauðarefsingu, Eymönnum og Glitbrá.
Kristján (Þorgeir) Guðmundsson hljómborðsleikari er einnig sextíu og sex ára í dag. Hann hefur í gegnum tíðina leikið með tugum hljómsveita í ballgeiranum og meðal sveita má nefna Erni, Í hvítum sokkum, Óvissu, Póker, Spacemen, Hauka, Áningu, Bravó, Picasso, Mandala, Hljómsveit Ingimars Eydal, Ljósbrá og Celsius.
Halldór Gylfason tónlistarmaður og leikari er fjörutíu og átta ára gamall í dag. Halldór hefur mestmegnis komið við sögu á plötum sem hafa að geyma tónlist úr leikhúsinu, þar á meðal telst hljómsveit hans, Geirfuglarnir, sem hefur gefið út nokkrar plötur en einnig hefur hann sungið á plötum tengdar knattspyrnufélaginu Þrótti. Halldór var einnig í hljómsveitinni Sirkus Babalú hér áður.
Selma Björnsdóttir söngkona er fjörutíu og fjögurra ára. Hún hefur tvívegis farið sem fulltrúi Íslands í Eurovision söngkeppnina og naut mikilla vinsælda um tíma, gaf í kjölfarið út nokkrar sólóplötur og fékk útgáfusamning erlendis sem litlu skilaði, en varð þeim mun áberandi á söngleikjasviðinu hér heima og hefur sungið á plötur ásamt Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur og einnig Miðnæturkúrekunum.
Gunnar (Ólafur Þór) Egilson klarinettuleikari hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2011. Gunnar, sem var fæddur 1927, menntaði sig í klarinettuleik hér heima, í Bandaríkjunum og Bretlandi lék á árum áður með B.G. kvintettnum, Dixielandhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og fjölmörgum öðrum hljómsveitum en var í seinni tíð meira í lausamennsku, lék þá á plötum annarra listamanna, þar má m.a. nefna Vilhjálm Vilhjálmsson, BG & Ingibjörgu og Spilverk þjóðanna. Gunnar lét einnig til sín taka í félagsmálum tónlistarmanna, starfaði m.a. fyrir FÍH og FÍT að réttindamálum.