Afmælisbörn 14. júní 2018

Jóhann Gestsson

Fjögur afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Steinunn Harðardóttir er fyrsta afmælisbarnið á listanum en hún er þrjátíu og eins árs gömul í dag. Steinunn hefur verið í hljómsveitum og verkefnum eins og Sparkle poison, Fushigi four og Skelki í bringu en er að sjálfsögðu þekktust sem Dj flugvél og geimskip og hefur gefið út þrjár plötur undir því aukasjálfi.

Hin þýska Monika Abendroth hörpuleikari á sjötíu og fjögurra ára afmæli. Hún hefur búið hér á landi síðan um miðjan áttunda áratug síðustu aldar og leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess að leika á mörgum tugum hljómplatna hérlendis. Monika er einna kunnust fyrir samstarf sitt við Pál Óskar Hjálmtýsson en þau hafa gefið út tvær plötur saman.

Albert Elías Arason bassaleikari Meistara dauðans á einnig afmæli en hann er átján ára gamall á þessum degi. Meistarar dauðans vöktu einmitt athygli fyrir fyrstu plötu sína en meðlimir hennar eru allir mjög ungir.

Jóhann (Ásberg) Gestsson söngvari hefði ennfremur átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 1998. Jóhann, sem fæddist 1934, söng með fjölmörgum hljómsveitum hér heima s.s. Hljómsveit Svavars Gests, Hljómsveit Gunnars Ormslev og Stratos kvartettnum en hann bjó lengstum erlendis og því varð söngferill hans ekki sá sem hann hefði getað orðið hér á landi.