Baunagrasið (1992-93)

Jóhannes Pétur Davíðsson (1971-2013) gaf út plötu undir aukasjálfinu Baunagrasið, sú plata fór þó ekki hátt.

Jóhannes sem var gullsmiður að mennt hafði fengist við gítarkennslu, rekið hljóðverið Hljóðmúrinn um tíma auk þess að reka skemmtistaði, m.a. Jollygood (áður Hollywood) þegar hann hóf að taka upp frumsamið efni undir nafninu Baunagrasið og haustið 1992 kom eitt þeirra út á safnplötunni Lagasafnið 2. Um ári síðar kom út plata Baunagrasins, Loksins undir merkjum Hljóðmúrsins en á henni naut hann liðsinnis nokkurra tónlistarmanna.

Platan hlaut fremur dræmar móttökur og verður hennar helst minnst fyrir að einhverjir óprúttnir náungar reyndu að selja hana undir því yfirskini að ágóðinn af sölu hennar rynni til krabbameinssjúkra barna.

Efni á plötum