Bjöllukór Bústaðakirkju (1988-2001)

Bjöllukór Bústaðakirkju

Bjöllukór starfaði við Bústaðakirkju um árabil undir stjórn Guðna Þ. Guðmundssonar organista kirkjunnar.

Bjöllukórinn var stofnaður haustið 1988 en meðlimir hans voru yfirleitt á aldrinum 10 til 14 ára. Hann var endurnýjaður í nokkur skipti sökum aldurs barnanna og gat verið nokkuð misjafn að stærð.

Flestir meðlimir bjöllukórsins höfðu verið að læra á hljóðfæri hjá Guðna og höfðu því annað hljóðfæri sem aðalhljóðfæri, stundum léku þau á sín aðalhjóðfæri á tónleikum og þá gekk hópurinn undir nafninu Æskulýðshljómsveit Bústaðakirkju. Mörg þeirra voru ennfremur í Barnakór Bústaðakirkju og oft var talað um Barna- og bjöllukór Bústaðakirkju í sama vettvangi, bjöllukórinn var þó alltaf sjálfstæð eining innan kirkjustarfsins.

Bjöllukór Bústaðakirkju hélt margsinnis tónleika, bæði sjálfstæða en einnig í stærra samhengi, þá ásamt stærri hljómsveitum og kórum. Þau léku einnig við óvenjuleg tækifæri s.s. eins og þegar þau komu fram á útgáfutónleikum hljómsveitarinnar Múm og léku þar lög sveitarinnar. Kórinn fór ennfremur um land allt til tónleikahalds og lék meira að segja í Tívolí í Kaupmannahöfn.

Guðni stjórnandi lést sumarið 2000 og starfaði Bjöllukór Bústaðakirkju ekki lengi eftir það, hann mun hafa hætt störfum um áramótin 2001-02 og stjórnaði Jóhanna V. Þórhallsdóttir honum síðustu mánuðina.

Leik Bjöllukórs Bústaðakirkju má heyra á plötunni Kirkjutónar: Tónlistarlíf í Bústaðakirkju, sem gefin var út 1997 og hafði að geyma þverskurð af tónlistarstarfinu í kirkjunni.

Efni á plötum