Blackout [1] (1992-94)

Blackout

Hljómsveitin Blackout (Black out) starfaði á höfuðborgarsvæðinu 1992-94, sveitin var nokkuð áberandi á öldurhúsum borgarinnar og reyndar einnig á landsbyggðinni með cover-rokk sitt en laumaði einu og einu frumsömdu inn í prógrammið. Tvö þeirra rötuðu inn á safnplöturnar Algjört kúl og Ýkt böst.

Sveitin var stofnuð á haustdögum 1992 en ekki liggur alveg fyrir hverjir skipuðu hana í upphafi, vorið 1993 voru meðlimir hennar Beggi Viðars [Þorbergur Viðarsson?] söngvari, Stefán Þór Stefánsson bassaleikari, Leifur Ingi Óskarsson gítarleikari, Gunnar Einarsson gítarleikari og Andri Hrannar Einarsson trymbill. Söngkonan Jóna De Groot leysti Begga síðan af hólmi og var sveitin nokkuð virk veturinn 1993-94.

Um vorið 1994 fór Blackout í nokkurra vikna frí og kom til baka með breytta liðsskipan. Jóna söngkona og Leifur gítarleikari voru þá ein eftir af fyrri útgáfunni og í stað hinna komu Hreiðar Júlíusson trommuleikari og Stefán Sigurðsson bassaleikari. Þannig skipuð sendi sveitin frá sér tvö lög á safnplötum 1994.

Black out hætti störfum síðla árs 1994.