X-izt (1984-95)

X-izt

Hljómsveitin X-izt (X-ist) starfaði í fjölmörg ár á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og lék hefðbundið melódískt gamaldags þungarokk við fremur góðan orðstír, sveitin reyndi fyrir sér um nokkurra mánaða skeið í Bandaríkjunum en náði þó ekki að landa útgáfusamningi vestra eins og markmiðið var.

Sveitin hafði starfað í nokkur ár í bílskúrnum áður en hún steig opinberlega á svið. Þannig höfðu þeir Guðlaugur Falk gítarleikari, Jón Guðjónsson (oft kallaður Jón Richter) bassaleikari og Eiður Örn Eiðsson söngvari (Þrumuvagninn o.fl.) byrjað að æfa efni árið 1984 eftir Guðlaug, mannskapurinn eða hluti hans að minnsta kosti hafði einnig gengið undir nöfnunum Áhrif, C.o.t. (Chariot of thunder/Þrumuvagninn) en það voru líklega aðrar en náskyldar sveitir. Það var svo síðsumars 1987 sem sveitin fékk á sig nokkuð endanlega mynd og nafn, Exizt (Exist) sem lengi vel var með öðrum rithætti en síðar varð.

Trommuleikarinn Guðmundur Gunnlaugsson varð trymbill sveitarinnar en ekki liggur fyrir hvort annar trommari hafi verið á undan honum. Svo virðist sem Eiður hafi ekki verið söngvari sveitarinnar um þetta leyti heldur hafi þá Sigurður V. Dagbjartsson tekið við því hlutverki ásamt því að leika á gítar, Sigurður var þá þekktari fyrir öllu léttari tónlist s.s. með Upplyftingu en hann hafði m.a. sungið lagið um Rabbabara Rúnu.

Exizt lék í nokkur skipti opinberlega um haustið 1987 og þá söng Kolbrún Ingibergsdóttir stöku sinnum með henni einnig, árið 1988 og 89 var sveitin nokkuð áberandi í tónleikahaldi víðs vegar um borgina og vakti nokkra athygli fyrir tónlist sína sem féll í nokkuð góðan jarðveg en þungarokk af þeirri tegund sem sveitin lék var ekki beinlínis það sem var vinsælast hér á landi á þeim tíma.

Sumarið 1990 átti Exizt lag á safnplötunni Hitt og þetta og aðallega hitt alla leið. Í því lagi lék Ágúst Jóhannsson á bassa, ekkert bendir þó til að hann hafi verið bassaleikari sveitarinnar um það leyti enda kemur nafn Jóns Richter iðulega upp í tengslum við hana. Þetta sumar lék sveitin m.a. á útihátíð sem haldin var í Húnaveri um verslunarmannahelgina.

Um áramótin 1991-92 urðu þær breytingar á sveitinni að Sigurður Reynisson gekk til liðs við þá félaga í stað Guðmundar trommuleikara en þá var Eiður Örn aftur orðinn söngvari hennar. Um vorið varð Exizt svo fræg að hita upp fyrir bresku þungarokksveitina Iron Maiden og um það leyti kom fyrst upp kvittur um að sveitin ætlaði að þreifa fyrir sér í Bandaríkjunum með útgáfu í huga. Gítarleikarinn Eiríkur Sigurðsson bættist í hópinn þarna um sumarið og lék með þeim í fáeina mánuði en þeir félagar hituðu svo upp fyrir aðra breska þungarokksveit, Black sabbath, á tónleikum á Akranesi um haustið.

X-izt árið 1992

Um sumarið 1992 sendi Exizt frá sér plötuna After midnight sem tekin hafði verið upp í Stúdíó Stef um veturinn 1991-92 af Birgi Gunnlaugssyni undir stjórn Guðlaugs. Platan hlaut mjög misjafna dóma, frábæra í Degi, þokkalega í Vikunni en fremur slaka í Pressunni. Sveitin naut mikilla vinsælda hjá hermönnum á Keflavíkurflugvelli og þangað fór hún í nokkur skipti til að spila. Fljótlega eftir útkomu plötunnar seldu þeir félagar fimmtíu eintök af henni á aðeins tuttugum mínútum á Vellinum og þar var einnig gerður um þá klukkustundar langur útvarpsþáttur.

Það var því ekki upp úr engu að þeir félagar létu sig dreyma um frægð og frama í Bandaríkjunum, umboðsmaður Sykurmolanna hafði myndað einhver sambönd milli Exizt og tengla í Los Angeles og sveitin fór á fullt í vinnu tengda því, m.a. með dreifingu á pakka sem hafði að geyma plötuna After midnight, eldspýtnabréf og eitthvað fleira, sú markaðsherferð fékk reyndar tilnefningu á Íslensku auglýsingaverðlaununum á vegum ÍMARK.

Þessi vinna sem og vinna við nýtt efni varð til þess að lítið fór fyrir Exizt veturinn 1992-93 en sveitin birtist aftur um vorið 1993 og frumflutti þá fullt af nýju efni, þá léku þeir einnig nokkuð uppi á Velli.

Um sumarið fóru þeir félagar svo til Ameríku til að slá í gegn – en trommaralausir. Fyrstu vikurnar fóru í að finna þarlendan trymbil og þegar það hafði tekist og hann æfður upp, var tekið til við spilamennsku, líklega mestmegnis á austurströndinni. Sveitin mun hafa dvalist í Bandaríkjunum í um sex mánuði og kom heim um áramót 1993-94 samkvæmt því, þá hafði hinn bandaríski trommari (sem engar upplýsingar er að hafa um) hætt í sveitinni og Íslendingunum fannst þá sjálfum komið nóg og héldu heim.

Fyrst um sinn eftir að heim var komið héldu þeir félagar sig til hlés og að öllum líkindum starfaði sveitin ekkert fyrr en vorið 1994, þá voru í sveitinni þeir Eiður, Guðlaugur, Jón og Sigurður. Nafn sveitarinnar var nú ritað með breyttum rithætti, X-izt (X-ist) þótt það væri í grunninum til sama nafnið. Sveitin lék nokkuð um sumarið og í október tóku þeir upp þrettán laga plötu í Fílabeinsturninum, sem hlaut titilinn Giants of yore og kom út fyrir jólin 1994. Platan fór ekki hátt en fékk þó mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

X-izt starfaði ekki lengi eftir útgáfu plötunnar og fljótlega eftir áramótin 1994-95 var hún hætt störfum. Sveitin hefur þó komið saman í nokkur skipti síðan frá árinu 2002, síðast líklega árið 2011.

Eftir að X-izt lagði upp laupana stofnuðu Jón bassaleikari og Guðlaugur gítarleikari hljómsveitina Tin ásamt meðlimum úr Blackout, og gekk Sigurður trommuleikari til liðs við þá nokkru síðar. Sú sveit varð skammlíf.

Guðlaugur var mest áberandi þeirra félaga eftir að samstarfinu í X-izt lauk, og sendi hann frá sér tvær sólóplötur í kringum aldamótin, hann lést árið 2017.

Efni á plötum