Afmælisbörn 18. febrúar 2019

Birkir Fjalar Viðarsson

Glatkistan hefur að þessu sinni þrjú afmælisbörn á skrá:

Halldór Haraldsson píanóleikari er áttatíu og tveggja ára gamall í dag. Hann nam hér heima og í London, hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kennt á píanó í og gegnt stöðu skólastjóra Tónlistarskólans í Reykjavík, gegnt ábyrgðarstörfum fyrir FÍT og önnur félagssamtök hér heima og erlendis svo fáein atriði séu tíunduð, hann hefur hlotið fálkaorðuna og heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir störf sín. Hann hefur einnig gefið út nokkrar plötur þar sem píanóleik hans er að finna.

Dr. Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarskríbent er fjörutíu og fimm ára gamall. Hann var í einhverjum hljómsveitum á yngri árum (t.d. Maunum) en er fyrst og fremst þekktur fyrir tónlistarumfjöllun sína í Morgunblaðinu frá 1999, dagskrárgerð á Rás 2 og hefur auk þess skrifað bækur um tónlist. Arnar gegnir í dag stöðu aðjúnkts í tónlistarfræðum við Háskóla Íslands.

Þá á Birkir Fjalar Viðarsson trommuleikari og söngvari frá Reyðarfirði fjörutíu og eins árs afmæli í dag. Birkir hefur mestmegnis verið viðloðandi sveitir í harðari kantinum, fyrst fyrir austan með sveitum eins og Kristur drepinn og Gleðisveitinni Döðlum en síðar I adapt, Bisund, Stjörnukisa, Celestine og mörgum öðrum.