Valli og víkingarnir (1982)

Snemma vors 1982 birtist í plötubúðum tveggja laga sjö tomma með hljómsveitinni Valla og víkingunum sem enginn þekkti deili á. Annað lagið, Úti alla nóttina (sem var upphaflega sænskur slagari) varð strax þokkalega vinsælt (og heyrist reyndar stöku sinnum ennþá spilað á útvarpsstöðvunum) en hitt lagið, Til í allt vakti minna athygli. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Fljótlega kvisaðist út að söngvari sveitarinnar (Valli) væri útvarpsmaðurinn Þorgeir Ástvaldsson en hann hafði þegar hér var komið sögu nýlega sungið stórsmellina Ég fer í fríið og Fjólublátt ljós við barinn. Víkingarnir voru hins vegar hljómsveitin Start sem einnig höfðu gert það gott með lög eins og Lífið og tilveran, Sekur og Seinna meir. Því mætti segja að um hafi verið að ræða nokkurs konar súpergrúppu.

Ekki varð um frekara samstarf þeirra Valla og víkinganna að ræða en lögin tvö rötuðu á nokkrar safnplötur s.s. Óskalögin 5 (2001), Í sumarsveiflu (1992), Með lögum skal land byggja (1985) og Á fullu (1982).

Efni á plötum