Við krefjumst framtíðar [tónlistarviðburður] (1983)

Aðstandendur tónleikanna

Tónlistarhátíðin Við krefjumst framtíðar var haldin í Laugardalshöllinni, laugardagskvöldið 10. september 1983 en hún var hluti af Friðarhátíð sem þá stóð yfir í Reykjavík.

Fjöldinn allur af tónlistarmönnum komu fram á tónleikunum og meðal hljómsveita má nefna Vonbrigði, Egó, Kukl og Ikarus, Megas söng með síðast töldu sveitinni en hann hafði þá ekki komið fram opinberlega í nokkur ár. Einnig skemmti hljómsveitin Oxzmá á klósettum Laugardalshallarinnar auk þess sem götuleikhúsið Svart og sykurlaust sá um skemmtiatriði á gólfi. Hápunktur tónleikaranna átti að vera breska hljómsveitin Crass en áður en hún hóf leik sinn vörpuðu þeir tuttugu og fimm mínútna langri kvikmynd á tjald til að koma boðskap sínum á framfæri. Hinir ríflega fjögur þúsund gestir sem fylltu Laugardalshöllina voru þá búnir að skemmta sér í fjórar klukkustundir og höfðu ekki þolinmæði til að horfa á myndina til enda og því spilaði sveitin fyrir hálf tómri Höllinni og urðu tónleikarnir endasleppir fyrir vikið. Að öðru leyti þóttu þessir stórtónleikar heppnast vel.