Magnús Baldvinsson (1958-)

Magnús Baldvinsson

Bassasöngvarinn Magnús Baldvinsson hefur starfað erlendis um árabil og hefur því síðustu árin lítið sungið hér á landi, hann á að baki eina plötu.

Magnús (fæddur 1958) söng í kórum áður en hann hóf einsöngvaraferil sinn, hann hafði þá sungið í kór innan KFUM og einnig í Mótettukór Hallgrímskirkju frá stofnun 1982 og Kór Hallgrímskirkju þar á undan.

Það var svo árið 1984 sem hann hóf nám við Söngskólann í Reykjavík, m.a. hjá þeim Má Magnússyni, Guðmundi Jónssyni og Dóru Reyndal. Á námsárum sínum var hann farinn að syngja einsöng á tónleikum með Mótettukórnum og Kantötukórnum, og eftir að hafa lokið námi hér heima 1987 hleypti hann heimdraganum og fór til framhaldsnáms í Bandaríkjunum fyrir tilstuðlan eins kennara síns hér heima, þar sem hann stundaði nám í Bloomington í Indiana.

Næstu árin var Magnús við nám vestan hafs og starfaði þar samhliða því, 1991 gerði hann samning við óperuna í San Francisco og þá um jólin kom hann heim til Íslands, þá notaði hann tækifærið og hljóðritaði lög úr söngbók séra Friðriks Friðrikssonar en Magnús hafði sem fyrr segir sungið með kór innan KFUM og hafði verið nokkuð virkur í starfseminni þar. Platan, sem hlaut titilinn Nú tindra stjörnur: úr Söngbók séra Friðriks, kom út um vorið 1992 og kom út í geislaplötu og kassettuformi á vegum KFUM. Hún hlaut góða dóma í Morgunblaðinu og Degi.

Magnús starfaði áfram í San Francisco næstu árin en kom reglulega heim til Íslands og söng á tónleikum, m.a. tók hann þátt í uppfærslu á Niflungahring Wagners á Listahátíð 1994 og söng það sama ár einnig í Á valdi örlaganna.

Árið 1996 var hann ráðinn til Þýskaland, þar sem hann starfaði við Krefeld-Mönchengladbach og síðar við Frankfurt óperuna, síðar var hann lausráðinn víða um Evrópu, s.s. Noregi, Belgíu og víðar.

Í byrjuna tuttugustu og fyrstu aldarinnar kom Magnús reglulega heim til Íslands og söng hér á tónleikum, s.s. með Mótettukórnum og með Sinfóníuhljómsveit Íslands en síðustu árin (eftir kreppu) hefur minna farið fyrir honum hér heima, hann starfar enn eftir því sem best verður komist í Þýskalandi.

Efni á plötum