
Símon í Hól
Þrjú afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag:
Fyrstan skal nefna Hreim Örn Heimisson söngvara, eða bara Hreim í Landi og sonum en hann er fjörutíu og eins árs gamall í dag. Hreimur söng og spilaði með nokkrum hljómsveitum áður en Land og synir komu til sögunnar, þar má nefna Föroingabandið, Sexappeal, Eins og hinir, Richter og nú síðast Made in sveitin. Hreimur hefur einnig gefið út sólóefni, tekið þátt í lokakeppni Eurovision með Vinum Sjonna, samið og flutt þjóðhátíðarlög og unnið við ýmis tónlistarverkefni með hinum og þessum.
Ásgeir Trausti (Einarsson) á einnig afmæli í dag en hann er tuttugu og sjö ára gamall. Ásgeir, sem er ein helsta vonarstjarna Íslands í tónlistargeiranum í dag, sendi frá sér plötuna Dýrð í dauðaþögn árið 2012 sem sló í gegn og seldist í bílförmum, hún var síðan gefin út fyrir erlendan markað 2013 og hét þá In the silence. Önnur plata, Afterglow kom út 2017. Ásgeir hefur leikið með hljómsveitum eins og Wildberry, Lovely lion og Uniimog.
Símon í Hól eða Símon Johnsen Þórðarson hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann fæddist 1888. Símon var liðtækur söngvari hér á árum áður, lærði í Þýskalandi og Danmörku en starfaði fyrst og fremst sem lögfræðingur. Þess má geta að hann varð fyrstur Íslendinga til að syngja í útvarpi ásamt Árna Jónssyni frá Múla. Símon var faðir Guðrúnar Á. Símonar, hann lést 1934.