Símon í Hól (1888-1934)

Símon í Hól1

Símon í Hól

Símon í Hól (Símon Johnsen Þórðarson) var einn þekktasti söngvari landsins í eina tíð, hans hefur síðar verið minnst fyrir að vera faðir Guðrúnar Á. Símonar og fyrir að vera fyrstur söngvara til að syngja í íslenskt útvarp.

Símon (f. 1888) fór til Danmerkur að loknu menntaskólanámi hér heima en lauk ekki háskólanámi ytra, hins vegar lærði hann söng bæði í Kaupmannahöfn og í Berlín en sneri heim til Íslands þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á.

Hér heima söng hann víða, oft einsöng með Karlakór K.F.U.M. (síðar Fóstbræðrum) en lauk ennfremur lögfræðinámi (1921). Hann sinnti starfi sínu sem lögfræðingur fyrst og fremst, og var til að mynda um tíma sýslumaður í Vestmannaeyjum.

Símon varð vel kunnur fyrir sönglist sína og árið 1926 varð hann fyrstur Íslendinga ásamt Árna Jónssyni frá Múla (föður Jóns Múla Árnasonar) til að syngja í útvarp hérlendis en þá voru tilraunaútsendingar útvarps í gangi, þótt Ríkisútvarpið tæki reyndar ekki til starfa fyrr en fjórum árum síðar. Sungu þeir Árni sænska glúntasöngva. Símon söng síðar oft í útvarpið.

Reyndar segir sagan að Símon hafi hvort tveggja verið illa sviðsvanur – liðið illa á sviði, og verið svo sjálfsgagnrýninn að hann var aldrei sáttur við söng sinn, þess vegna hafi hann aldrei sungið inn á plötu. Honum hafi hugnast best að syngja í litlum hópi vina og kunningja.

Símon var giftur Ágústu Pálsdóttur sem einnig þótti afburðargóð söngkona en ein þriggja dætra þeirra var Guðrún Á. Símonar, sem síðar varð ein skærasta söngstjarna íslenskrar tónlistarsögu.

Þrátt fyrir að aldrei hafi komið út hljómplata með Símoni hefur eitthvað varðveist af upptökum með söngvaranum, til að mynda kom út lag á plötunni Tvísöngur (2004), með Schola Cantorum og sönghópnum Feðranna frægð, þar syngur hann ásamt Pétri Halldórssyni en platan hafði meðal annars að geyma gamlar upptökur úr safni Ríkisútvarpsins.

Símon var einungis 46 ára gamall er hann lést (1934) eftir að hafa átt í veikindum um tíma.