Margrét Sighvatsdóttir (1930-2012)

Margrét Sighvatsdóttir

Margrét Sighvatsdóttir var margt í senn, laga- og textahöfundur, kórstjórnandi og hljóðfæraleikari en kannski fyrst og fremst söngkona, hún var öflug í tónlistarlífi Grindvíkinga og þegar hún varð áttræð kom út plata með þrettán lögum eftir hana.

Margrét fæddist á Rangárvöllum 1930 en flutti í Flóann níu ára gömul og þar í sveit mun hún fyrst hafa kynnst tónlistinni. Hún lærði á píanó sem barn og lék einnig á gítar og harmonikku en tónlistin var henni í blóð borin, bræður hennar sem nefndu sig gjarnan Ragnheiðarstaðabræður léku oftsinnis á dansleikjum í sveitinni og einnig söng Margrét sjálf með Engjarósum í Flóanum, söngsextett sem hún stjórnaði sjálf. Hún söng þar ennfremur í kirkjukórnum og kom margsinnis fram á söngskemmtunum í hreppnum.

Margrét giftist og fluttist til Keflavíkur og síðar Grindavíkur þar sem hún átti eftir að vera nokkurs konar kjölfesta í tónlistarlífi bæjarins næstu áratugi ásamt eiginmanni sínum Páli H. Pálssyni en í Grindavík rak fjölskyldan útgerðarfyrirtækið Vísi frá árinum 1965. Í Grindavík sinnti hún ýmsum tónlistartengdum verkefnum, annaðist m.a. tónlistarkennslu um tíma við grunnskólann, stjórnaði barnakórum og setti upp frumsamda barnasöngleiki (Vordraum og Lóan kemur) í félagsheimilinu Festi, þar sem hún kom að öllum hliðum verkefnisins, leikstýrði, hannaði búninga, málaði leiktjöld, samdi dansa og leikstýrði. Þá söng Margrét í kirkjukórnum á staðnum (í um þrjá áratugi) en söng einnig oft einsöng á tónleikum. Hún var sópran söngkona og hafði lært söng hjá Maríu Markan, Sigurði Demetz, Guðrúnu Á. Símonar og John Speight. Árið 1985 söng Margrét eigið lag og texta (Söngur sjómannskonunnar) á plötu Gylfa Ægissonar, Sumarplötu sjómannssins en hún hafði þá samið tónlist um tíma.

Margrét á sviði

Þegar Margrét var komin á eldri ár hægðist lítið á henni í tónlistinni og frá árinu 2003 lék hún á hljómborð með DAS-bandinu svokallaða sem starfaði á Hrafnistu í Hafnarfirði þangað sem þau hjónin voru þá flutt, þá söng hún líka í kór eldri borgara, Gaflarakórnum á þeim tíma.

Fjölskylda Margrétar, börn og afkomendur hafa verið heilmikið viðloðandi tónlist og árið 2010 gáfu þau út þrettán laga plötu sem hafði að geyma lög og texta Margrétar undir titlinum Lögin hennar mömmu: Margrét Sighvatsdóttir. Börn Margrétar (og tvö barnabörn hennar) sungu lögin við undirleik nokkurra valinkunnra tónlistarmanna. Tilefnið var áttræðis afmæli hennar, og rann andvirði af sölu plötunnar til Krabbameinsfélags Íslands. Útgáfa plötunnar vakti töluverða athygli.

Margrét lést árið 2012 á áttugasta og öðru aldursári og hefur fjölskylda hennar verið dugleg að halda nafni hennar og minningu á lofti með tónleikahaldi og þegar eftirlifandi eiginmaður hennar, Páll H. Pálsson lést árið 2015 gáfu börn þeirra út plötuna Lögin hans pabba: uppáhalds sjómannalög Páls H. Pálssonar, þar sem þau sungu þekkt sjómannnalög sem höfðu verið í uppáhaldi hjá honum. Þau systkini og afkomendur hafa aukinheldur komið fram undir nafninu Vísissystkinin og einnig er starfandi kór í Grindavík undir heitinu Vísiskórinn, sem segja má að sé til kominn vegna Margrétar Sighvatsdóttur.

Efni á plötum