
Magnús Þór Sigmundsson
Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:
Magnús Þór Sigmundsson tónlistarmaður er sjötíu og eins árs gamall í dag. Magnús Þór er auðvitað kunnastur fyrir samstarf sitt með Jóhanni Helgasyni, sbr. Magnús & Jóhann, en saman störfuðu þeir líka sem Pal brothers og í hljómsveitinni Change. Magnús Þór hefur ennfremur gefið út fjöldann allan af sólóplötum og þar af eru nokkrar ætlaðar börnum. Mörg laga Magnúsar Þórs hafa notið mikilla vinsælda og meðal þeirra má nefna Blue jean queen, Ást, Álfar, Dag sem dimma nátt, Pósturinn Páll, Jörðin sem ég ann og Ísland er land þitt, sem allir þekkja.
Hörður G. Ólafsson bassaleikari og lagahöfundur úr Skagafirðinum er sextíu og sex ára gamall á þessum degi. Hörður samdi m.a. lagið Eitt lag enn, sem Stjórnin flutti í úrslitum Eurovision keppninnar 1990 í Júgóslavíu en hann hefur aukinheldur gefið út sólóefni. Hörður hefur starfað í ýmsum hljómsveitum, á meðal þeirra má nefna Styrmingu, Norðan 3, Herramenn, Stöff, Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar og Neista.
Þá á Leó Geir Torfason gítarleikari sextíu og fimm ára afmæli. Leó hefur leikið með sveitum af ýmsu tagi og þeirra þekktust er líklega Miðaldamenn en einnig má nefna sveitir eins og Bóleró, Golíat, Vöku, Búddabítlana og Blúsbrot. Leó sendi frá sér sólóplötuna Draumsýn árið 1995.