Heimir
Lag / texti: Sigvaldi Kaldalóns / Grímur Thomsen
Þeir spurðu Heimi’ er hann að Rín
Hlymsdala kom úr borg:
“Heyrist oss gráta harpan þín,
hvað veldur þeirri sorg?”
“Hún grætur frægan föður sinn,
fær seint það tjónið bætt,
hún grætur grimmu forlögin,
er gengu’ yfir hennar ætt.
Hún grætur harma’ og heiftarorð
og hjartans djúpu neyð,
hún grætur sinnar móður morð
og margan rofinn eið.
Örlaga nornin af réð má
allt hennar göfga kyn,
og svo er komið, að hún á
mig einan fyrir vin”.
[m.a. á plötunni Jón Kr. Ólafsson – Ljúfþýtt lag]