Afmælisbörn 8. nóvember 2019

Torfi Ólafsson

Tvö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Torfi Ólafsson tónlistarmaður er sextíu og fjögurra ára gamall í dag en fáir hafa líklega leikið á bassa og gítar með jafnmörgum pöbbasveitum og hann, þeirra á meðal má nefna sveitir eins Droplaugu, Rósina, Glæsi, Marz, Systur Söru, Venus, Borgarsveitina, Dansbandið, ET-bandið og Melódíku. Torfi er einnig afkastamikill lagahöfundur og hefur gefið út nokkrar plötur með tónlist sinni.

Vilhjálmur Guðjónsson klarinettu- og saxófónleikari átti einnig þennan afmælisdag en hann lést árið 1977. Vilhjálmur, sem var fæddur 1917 var í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá stofnun og lék með henni lengi, sinnti tónlistarkennslu og störfum innan FÍH, en lék jafnframt með fjölda hljómsveita á sínum tíma s.s. Hljómsveit Poul Bernburg, Hljómsveit Aage Lorange, Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar, Hljómsveit Jack Quinet, KK sextett og fjölda annarra sveita, auk þess að leika inn á fjölmargar plötur á sínum tíma.