Musica sacra [tónlistarviðburður] (1953-61)

Frá tónleikum á vegum Musica sacra

Musica sacra var tónleikaröð sem þá tiltölulega nýstofnað Félag íslenzkra organleikara (síðar Félag íslenskra organista) stóð fyrir á árunum 1953 til 61 en hugmyndin var að reyna að efla kirkjutónlist í landinu með tiltækinu.

Fyrstu tónleikarnir voru haldnir haustið 1953 og eins og nafn tónleikaraðarinnar gefur til kynna var um kirkjulega tónlist að ræða en af ýmsu tagi, s.s. orgeltónlist, hljómsveitaleikur, einleikur, kórsöngur, einsöngur og margt fleira. Þá stóð félagið einnig að því að flytja hingað til lands þekkta tónlistarmenn úr þessum geira til að leika á tónleikunum. Hugmyndin var ennfremur að haldnir yrðu sex til átta tónleikar á ári víða um land undir þessari yfirskrift og í samstarfi við Ríkisútvarpið sem myndi senda þá út í beinni útsendingu ellegar hljóðrita þá og senda út síðar. Einnig stóð til að gefa út tónlistartengt tímarit undir sama titli en af því varð aldrei, og reyndar kom ekki út tímarit á vegum félags organista fyrr en árið 1968 þegar Organistablaðið leit dagsins ljós.

Musica sacra þóttist heppnast prýðilega þótt ekki yrðu viðburðirnir eins margir og ætlað var í upphafi og reyndar var starfið ekki alveg samfleytt, ennfremur var tónleikahaldið mestmegnis bundið við höfuðborgarsvæðið.

Síðustu tónleikar Musica sacra voru haldnir vorið 1961, tilraun var gerð til að endurvekja tónleikaröðina haustið 1968 en aðeins voru haldnir einir slíkir þá, í febrúar 1969.