Afmælisbörn 12. desember 2019

Jóhann Friðgeir Valdimarsson

Glatkistan hefur á skrá sinni í dag þrjú tónlistartengd afmælisbörn:

Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenórsöngvari er fimmtíu og tveggja ára gamall í dag, hann nam söng hér heima og á Ítalíu, hefur starfað m.a. í Íslensku óperunni, með Frostrósum og Mótettukórnum og haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis. Jóhann Friðgeir hefur gefið út nokkrar sólóplötur auk þess að syngja á plötum annarra tónlistarmanna.

Orri Harðarson trúbador og rithöfundur er fjörutíu og sjö ára, hann vakti fyrst athygli í Músíktilraunum með hljómsveitinni Óþekktum andlitum frá Akranesi og síðan með Tregablandinni lífsgleði og öðrum Skagasveitum, hann hefur spilað á plötum annarra auk þess að annast upptökustjórn og útsetningar, mest hefur hann unnið einn, enda hefur hann gefið út nokkrar sólóplötur.

Og að síðustu er hér nefndur ljóð- og textaskáldið frá Raufarhöfn Jónas Friðrik Guðnason en hann er sjötíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Jónas Friðrik er auðvitað kunnastur fyrir samstarf sitt við Ríó tríó en hann hefur einnig samið texta fyrir Björgvin Halldórsson, Mána, Sléttuúlfana, BG og Ingibjörgu, Diddú, Brimkló og Strumpana svo einungis fáein dæmi séu hér nefnd. Þess má geta að skáldið syngur eitt þekktasta Ríó-lagið, Allir eru að gera það.