Afmælisbörn 14. desember 2019

Haraldur F. Gíslason

Afmælisbörn Glatkistunnar í dag eru eftirfarandi:

Friðrik S. Kristinsson kórstjórnandi með meiru er fimmtíu og átta ára, hann hefur stýrt kórum eins og Karlakór Reykjavíkur, Snæfellingakórnum, Unglingakór Hallgrímskirkju, Drengjakór Reykjavíkur og Landsbankakórnum en hann er menntaður söngkennari og starfar einnig sem slíkur. Hann hefur sungið sjálfur inn á plötur enda söngmenntaður.

Ástvaldur (Zenki) Traustason hljómborðsleikari er fimmtíu og þriggja ára gamall í dag, hann hefur leikið með sveitum eins og Babadú, Tangósveit lýðveldisins, Stórsveit Reykjavíkur, Mao, Bardukha, Milljónamæringunum og Sálinni hans Jóns míns. Ástvaldur er skólastjóri Tónheima.

Ingvar Jónsson fyrrverandi söngvari Papanna er fimmtugur á þessum degi og á því stórafmæli dagsins, hann söng með Pöpunum og á plötum þeirra 1991-2000, hann hefur einnig sungið með Góðum landsmönnum og starfað sem trúbador, veislustjóri, kennari og margt annað.

Haraldur Freyr Gíslason trommuleikari (og söngvari) úr Hafnarfirði er fjörutíu og fimm ára gamall í dag. Þekktustu sveitir hans eru auðvitað Botnleðja og Pollapönk en aðrar minna þekktar eru sveitir eins Hafnarfjarðarmafían og Amma rúsína. Þá hefur Halli sent frá sér tvær sólóplötur, þar af aðra undir aukasjálfinu Fulli kallinn. Hann hefur síðustu árin starfað sem formaður Félags leikskólakennara.