Organistablaðið [fjölmiðill] (1968-95 / 2000)

Forsíða Organistablaðsins

Organistablaðið kom út í fjölmörg ár og var málgagn organista á Íslandi en blaðið kom út nokkuð samfleytt á árunum 1968 til 95.

Stofnað var til blaðsins árið 1968 af Félagi íslenskra organleikara (síðar organista) og segir í inngangsorðum fyrsta tölublaðsins að því væri ætlað að vera málgagn organista, tengiliður milli þeirra og fólksins í landinu. Í blaðinu var að finna hvers kyns greinar og fréttir, bæði íslenskar og þýddar, orgeltengdur fróðleikur af ýmsu tagi sem og afmælis- og andlátsgreinar en margir af mætustu organistum þjóðarinnar rituðu í blaðið.

Enginn eiginlegur ritstjóri stýrði blaðinu en ritnefnd var skipuð þremur aðilum hverju sinni, meðal fremstra í flokki þeirra sem störfuðu við blaðið má nefna Gunnar Sigurgeirsson, Pál Halldórsson, Kjartan Sigurjónsson og Ragnar Björnsson.

Organistablaðið kom út þrisvar á ári allt til ársins 1978 og var þá orðið mjög veglegt af efni en eftir það fækkaði tölublöðum og kom það út á bilinu einu sinni til þrisvar á ári til 1995 þegar það hætti að koma út. 1998 bárust þær fréttir að blaðið hefði sameinast Kirkjuritinu en svo virðist ekkert gerast meira í þeim málum, gerð var tilraun til að endurvekja blaðið árið 2000 og komu þá út tvö tölublöð en síðan þá hefir ekkert spurst til þess.