Gabríel [1] (1980-82 / 2002-03)

Gabríel

Ísfirska hljómsveitin Gabríel starfaði í nokkur ár og var þá öflug í ballspilamennskunni á Vestfjörðum.

Sveitin var stofnuð haustið 1980 á Ísafirði og voru Guðmundur Hjaltason söngvari og Kristinn Níelsson gítarleikari þar fremstir í flokki, aðrir meðlimir voru Alfreð Erlingsson hljómborðsleikari, Hólmgeir Baldursson trommuleikari og Þorsteinn Bragason bassaleikari, Jón Hallfreð Engilberts mun hafa tekið gítarnum af Kristni. Hugsanlega kom einhver söngkona við sögu sveitarinnar en óskað er eftir frekari upplýsingum um það.

Gabríel spilaði mikið á heimaslóðum og nærsveitum næstu tvö árin og í blaðaviðtali sumarið 1982 sögðust þeir félagar  fljótlega ætla að senda frá sér plötu og herja á landið allt með ballspilamennsku, ekki liggur fyrir hvort þeir fóru víðar um landið en platan kom að minnsta kosti aldrei út. Þess má geta að kærustur þeirra Gabríel-liða komu fram með hljómsveit á árshátíð árið 1982 og var kvennasveitin Sokkabandið stofnuð upp úr þeirri uppákomu.

Gabríel var að öllum líkindum endurvakin eftir aldamótin síðustu og lék þá í nokkur skipti opinberlega á heimaslóðum 2002 og 03, alltént eru allar líkur á að um sömu sveit sé að ræða.