Gaia (1991-93)

Dúettinn Gaia

Gaia var samstarfsverkefni Valgeirs Guðjónssonar og Eyþórs Gunnarssonar í tengslum við nokkurra mánaða siglingu samnefnds víkingaskip frá Noregi og vestur um haf árið 1991. Plata kom út með tvíeykinu og plötusamningur var gerður við bandarískt útgáfufyrirtæki en ekki varð um frekari landvinninga.

Tildrög þess að dúettinn varð að veruleika voru þau að norski útgerðarmaðurinn Knut Utstein Kloster lét smíða víkingaskipið Gaiu (eftirlíkingu af Gaukstaðaskipinu) sem sigla átti frá Noregi til Bandaríkjanna sumarið 1991 en um var að ræða ferð til að minnast ferða Leifs Eiríkssonar til Vesturheims, og var tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson sem fulltrúi Morgunblaðsins í föruneyti skipsins frá Noregi til Orkneyja.

Þegar Valgeir stakk upp á því við Kloster að semja tónlist tengda þessari merku för leyst útgerðarmanninum vel á hugmyndina og féllst á að styrkja verkefnið. Valgeir fékk Eyþór Gunnarsson til liðs við sig og saman sömdu þeir og útsettu tónlist sem kenna mætti við heimstónlist en var einnig kölluð nýaldartónlist í umfjöllun fjölmiðla hér heima um málið.

Víkingaskipið Gaia kom til Íslands á leið sinni yfir hafið og vakti för skipsins mikla athygli hér heima og á Grænlandi en minna fór fyrir athyglinni hjá Kanada- og Bandaríkjamönnum þegar skipið kom vestur um haf, mesta púður umræðunnar hér heima fór reyndar í að Norðmenn væru að eigna sér Leif Eiríksson. Þess má geta að skipið fór síðar til Brasilíu frá Washington en það er önnur saga.

Þeir Valgeir og Eyþór sendu frá sér plötu samnefna sveitinni (og skipinu) og kom hún út haustið 1991, þar sem tónlistin var ekki beinlínis vinsældavæn, að mestu ósungin heimstónlist, vakti platan fremur litla athygli almennings hér á landi en fékk þó ágæta dóma í DV og Vikunni. Útgáfan þótti sérlega vegleg, og innihélt m.a. ítarlegan bækling á ensku enda kom platan einnig út í Bandaríkjunum og Þýskalandi.

Frekari plön voru uppi um alþjóðlega útgáfu plötunnar og þegar farið var að vinna í þeim málum náðust samningar við bandaríska útgáfufyrirtækið Windham Hill records. Gaia kom því út aftur í Bandaríkjunum og einnig Brasilíu sumarið 1993 en ekki fara frekari sögur af viðtökum vestra. Þeir félagar ku hafa gert samkomulag um útgáfu á átta plötum á næstu árum en eitthvað varð minna úr því og ekki finnast upplýsingar um frekari útgáfu í Ameríku eða annars staðar.

Efni á plötum