Guðmundur Steingrímsson (1929-2021)

Guðmundur Steingrímsson

Guðmundur Steingrímsson er án nokkurs vafa einn allra þekktasti trommuleikari landsins en starfsferill hans náði í raun yfir flesta strauma og stefnur frá stríðslokum. Hann lék á trommur í mörgum af þekktustu dægurlagaperlum Íslendinga á sjötta áratugnum, starfaði sem session trommari um árabil, kenndi tónlist og spilaði djass frá hjartanu enda færasti swing trommuleikari sem þjóðin hefur alið eftir því sem fróðir segja. Þá var hann í fremstu röð við að kynna djasstónlistina, átti stóran þátt í að endurlífga djassinn eftir mögur ár um miðjan áttunda áratuginn og smitaði áhuga sínum til sér yngri manna sem margir hverjir eru í dag í fremstu röð djasstónlistarinnar hérlendis.

Guðmundur Steingrímur Steingrímsson fæddist árið 1929 og ólst upp í Hafnarfirði þar sem hann kynntist tónlistinni en fyrsti opinberi tónlistarflutningur hans mun hafa verið einsöngur með barnakór. Á unglingsárunum stóð hugurinn þegar til tónlistarinnar og lærði bæði á klarinettu og trommur enda hafði hann þá ætlað sér í skóla á Englandi til að nema trommuslátt. Hann lagði klarinettuna á hilluna þegar hann varð fyrir slysi og eftir það voru trommurnar aðal hljóðfæri hans en tónlistarnámið í Englandi slegið af, klarinettuleikarinn Guðmundur var þó einn þeirra sem stóðu að stofnun Lúðrasveitar Hafnarfjarðar haustið 1949.

Fyrsta hljómsveit Guðmundar var stofnuð árið 1944 í Hafnarfirði og hét Ungir piltar, sem var ágætlega við hæfi því hann var þá ekki nema um fimmtán ára gamall. Fjölmargir komu við sögu þessarar sveitar en þegar Gunnar Ormslev fluttist í Hafnarfjörðinn frá Danmörku kom hann inn í Unga pilta og fljótlega upp úr því (1946) stofnaði hann GO kvintettinn sem vakti strax mikla athygli, einkum fyrir hæfni Gunnars á saxófón og reyndar einnig færni Guðmundar en hann hafði þá numið trommuslátt mestmegnis af hljómplötum. Guðmundur var því eftirsóttur í lausamennsku og lék með ýmsum öðrum hljómsveitum á þessum árum s.s. hljómsveitum Baldurs Kristjánssonar, Magnúsar Randrup, Bjarna Böðvarssonar, Gunnars Jónssonar og Svavars Gests sem og Borgarbandinu .

Þegar GO kvintettinn lagði upp laupana gekk Guðmundur til liðs við Kvartett Ólafs Gauks Þórhallssonar og starfaði með þeirri sveit um tíma eða þar til hann gekk í Hljómsveit Stefáns Þorleifssonar (1949) sem lék í Tjarnarcafé, það sama ár lék hann einnig með Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar um tíma en þeir félagar úr Hafnarfirðinum, Guðmundur og Eyþór höfðu uppi hugmyndir um að fara utan til Brasilíu til að læra og kynnast þarlendri tónlist, þeir fóru til Englands og síðan Svíþjóðar en Eyþór fór þaðan til Spánar en Guðmundur kom heim svo ekkert varð úr Brasilíuförinni.

Guðmundur á yngri árum

Í kringum 1950 var Guðmundur farinn að koma fram á ýmsum uppákomum tengdum djasstónlistinni og m.a. tónleikum þegar erlendir djasstónlistarmenn heimsóttu landann. Þannig lék hann í tríói Árna Elfar sem lék með breska saxófónleikaranum Ronnie Scott á tónleikum í Gamla bíói síðsumars 1952, í jam sessioni með Chet Baker árið 1955 og með tríói Steinþórs Steingrímssonar sem lék með Leslie Hutchinson 1953. Í kringum þetta leyti, líklega 1952 lék hann einnig með kvartett Gunnars Ormslev en upptökur frá þeirri sveit komu út á plötunni Jazz í 30 ár, sem gefin var út í minningu Gunnars Ormslev – þar er klárlega um að ræða elstu upptökur sem til eru með Guðmundi.

Árið 1952 gekk Guðmundur til liðs við KK-sextettinn, reyndar hafði hann aðeins starfað með sveitinni 1948 en þarna átti hann eftir að vera í sveitinni þar til hún hætti störfum um áramótin 1961-62. KK-sextettinn spilaði mjög mikið, m.a. í Oddfellow-húsinu og Þórscafé og var án nokkurs vafa vinsælasta hljómsveit landsins og hefur orðið í fyllingu tímans að einhvers konar goðsagnakenndri sveit, sextettinn lék einnig á Vellinum hjá bandaríska hernum og hlaut þar m.a. sinn eigin vikulegan útvarpsþátt, sambönd sveitarinnar við herinn urðu jafnframt til þess að hún fékk boð um að leika í herstöðvum víða erlendis, s.s. í Svíþjóð, Þýskalandi og víðar í Evrópu.

Með KK-sextettnum lék Guðmundur á fjölda platna á sjötta og sjöunda áratugnum en mörg þeirra laga urðu geisivinsæl og hafa fyrir löngu orðið sígild í íslenskri tónlistarsögu, þeirra á meðal má nefna lög eins og Bimbó með Öskubuskum, Oft spurði ég mömmu o.fl. með Ingibjörgu Smith, Ég vil fara upp í sveit með Elly Vilhjálms, og Í kjallaranum, Ég er kominn heim o.fl. með Óðni Valdimarssyni, einnig lék hann með öðrum sveitum inn á plötur s.s. með Hljómsveit Gunnars Reynis Sveinssonar á plötum með Skapta Ólafssyni (Ó nema ég, Allt á floti o.fl.), með Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar á plötum með Erling Ágústssyni (Við gefumst aldrei upp, Þú ert ungur enn, Oft er fjör í Eyjum o.fl.) og með Hljómsveit Jóns Sigurðssonar á plötu með Elly Vilhjálms (Vegir liggja til allra átta, Lítill fugl o.fl.). Af þessari upptalningu má merkja að Guðmundur lék á trommur í mörgum af vinsælustu lögunum á þessum tíma, þá lék hann einnig á plötum með Ragnari Bjarnasyni, Hauki Morthens, Fjórtán fóstbræðrum og Ingibjörgu Þorbergs svo nefnd séu fleiri dæmi.

Þegar KK-sextettinn var lagður niður gekk Guðmundur til liðs við nýstofnaða Hljómsveit Hauks Morthens sem í fyrstu var ráðin húshljómsveit í Klúbbnum en lék síðan víðar, m.a. fór sveitin í fræga reisu til Sovétríkjanna á heimsmót æskunnar árið 1962 og í tónleikaferð einnig um Norðurlöndin ári síðar. Guðmundur lék með fleiri sveitum næstu árin, mest með Hauki Morthens sem lék t.d. mjög víða erlendis á þeim tíma en síðan einnig með Ragnari Bjarnasyni og hljómsveit á Hótel Sögu, sú sveit varð síðan einnig að Sumargleðinni sem fór víða um landsbyggðina með skemmtanir sínar og dansleiki. Báðar sveitirnar sendu frá sér plötur með Guðmund innanborðs. Hann starfaði ennfremur í skamman tíma með hljómsveit Ólafs Gauks um miðjan sjöunda áratuginn.

Guðmundur Steingrímsson í Fibes-bæklingi

Segja má að sjötti og sjöundi áratugurinn að viðbættum fyrri hluta þess áttunda, hafi verið helgaður dansleikjaspilamennsku hjá Guðmundi en það kom þó stöku sinnum fyrir að djasstengdar uppákomur væru haldnar þar sem hann kom við sögu þótt ekki væri það í líkingu við það sem var í kringum 1950. Þannig var hann einn þeirra sem flutti verkið Samstæður eftir Gunnar Reyni Sveinsson á Listahátíð í Reykjavík í Norræna húsinu sumarið 1970 en upptökur frá þeim gjörningi voru gefnar út á samnefndri plötu árið 1978. Frá þessari sömu listahátíð (sem var sú fyrsta í röðinni) kom út plata að frumkvæði Guðmundar árið 2012 þar sem píanóleikarinn Kjell Bækkelund lék ásamt Bengt Hallberg trio (Bengt Hallberg, Jóni Sigurðssyni og Guðmundi) undir titlinum Tilbrigði með og án stefja, platan fékk mjög góða dóma í Reykjavík. Þess má geta að í tilefni af útgáfu þeirrar plötu endurtók Guðmundur konsertinn ásamt íslensku einvalaliði á Listahátíð 2013 en hann var þá sjálfur á áttugasta og fjórða aldursári.

Þegar Guðmundur hætti í danshljómsveitabransanum í kringum 1973 tóku við session spilamennska, slagverksleikur í Sinfóníuhljómsveit Íslands (sem hann hafði reyndar starfað í með hléum frá um miðjan sjöunda áratuginn) og svo djasstengd spilamennska af ýmsu tagi, klassískur, framúrstefnu- og spunadjass. Guðmundur átti stóran þátt í að félagsskapurinn Jazzvakning var settur á laggirnar og þar var hann einna fremstur í flokki í starfinu, hann lék jafnframt á hvers kyns tónleikum og uppákomum í tengslum við djassinn, lék t.a.m. með Dixielandhljómsveit Árna Ísleifs, Tríói Jóns Möller, Jazzmönnum, Bláa bandinu, Djasskvartett Kristjáns Magnússonar, Tríói Jóns Páls Bjarnasonar, Gömmum, Slagbítum og Tríói Guðmundar Ingólfssonar svo nokkur dæmi séu nefnd en einnig sveitum sem settar voru saman fyrir eina eða fáa tónleika, t.d. með bassaleikaranum Bob Magnusson sem kom hingað til lands 1980 en þeir tónleikar voru hljóðritaðir og gefnir út á plötu, og endurútgefnir síðar, í þessu samhengi má einnig nefna píanistann Bob Darch og fleiri erlenda gesti sem hingað hafa komið. Guðmundur kom einnig fram með tónlistarhópnum Musica nova sem þó varla er hægt að tengja við djasstónlist heldur miklu fremur nútímatónlist.

Talað hefur verið um að þeir nafnar, Guðmundar Steingrímsson og Ingólfsson eigi stærstan þátt í að endurlífga djassinn á Íslandi á áttunda áratugnum (ásamt mönnum eins og Vernharði Linnet, Jónatani Garðarssyni o.fl.) og hafi jafnframt smitað frá sér til ungra tónlistarmanna sem þá voru að stíga sín fyrstu skref í djassinum, nöfn eins og Björn Thoroddsen, Tómas R. Einarsson, Þórður Högnason og mörg önnur hafa verið nefnd í því samhengi, margir þeirra höfðu viðdvöl í Tríói Guðmundar Ingólfssonar og vinsældir þess tríós náðu hámarki árið 1990 þegar platan Gling gló kom út þar sem Björk Guðmundsdóttir söng með þeim félögum eins og frægt er.

Leik Guðmundar má heyra á fjölmörgum og alls konar plötum frá þessu tímaskeiði og áfram næstu áratugina, hann lék t.a.m. á plötum Gylfa Ægissonar, Hjördísar Geirs, Bjarna Sigurðssonar frá Geysi, Söngflokks Eiríks Árna, Mannakorna, Bogomils Font og Milljónamæringanna, Viðars Alfreðssonar, Árna Ísleifs, Guðmundar Ingólfssonar, Tríós Björns Thoroddsen og Bubba Morthens en hann kom við sögu á Ísbjarnarblús þess síðast talda sem sýnir hvers konar kynslóða- og tónlistarbil Guðmundur gat brúað. Guðmundur lék einnig á plötu Ljósanna í bænum og kom jafnframt stundum fram með þeirri sveit sem og Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar og svo með Hljómsveit Hauks Morthens sem var endurvakin árið 1983 en með þeirri sveit lék hann með hléum næstu árin, og á plötu með Hauki einnig. Guðmundur kenndi líklega nánast samfleytt á trommur samhliða tónlistarferli sínum og hafa því margir notið kennslu hans í gegnum tíðina, hann mun einnig um tíma hafa kennt við tónlistarskólann í Grindavík.

Guðmundur Steingrímsson

Guðmundur starfrækti sveitir í eigin nafni, mestmegnis í kringum djasstónlistina en einnig annars konar tónlist s.s. sem lék um tíma á Hótel Íslandi í kringum 1990, þá fór hann með sveit til London sem lék þar á íslenskri menningarhátíð undir nafninu Guðmundur Steingrímsson jazz ensemble. Hann starfrækti einnig dúó, tríó, kvintetta og sextetta í eigin nafni á ýmsum tímum með ýmsum söngvurum og öðrum tónlistarmönnum. Þá starfaði hann lengi með syni sínum, Steingrími Guðmundssyni trommu- og slagverksleikara t.d. í tríóinu Þríhorninu (ásamt Áskeli Mássyni) en einnig sem dúó með Steingrími. Þeir feðgar gáfu árið 2006 út plötuna In the swing of the night, sem hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu en platan hafði að geyma níu lög eftir Steingrím, þar af tvö sem hljóðrituð höfðu verið árið 1984. Á plötunni blönduðu þeir saman austrænum og vestrænum slagverksstraumum og komu t.d. tabla trommur nokkuð við sögu á henni. Þeir feðgar fluttu einnig frumsamda slagverkstónlist tveir saman á tónleikum.

Eftir aldamótin fór ekkert að hægjast á Guðmundi þótt hann væri kominn á áttræðis aldur, hann lék heilmikið með Furstunum (hljómsveit Geirs Ólafssonar) bæði á tónleikum og plötum, og kom einnig fram með bandaríska tónlistarmanninum Don Randi tengt þeirri sveit, á síðustu æviárum sínum starfaði hann jafnframt sem trymbill með hljómsveit harmonikkufélags fyrir austan fjall og með Stórsveit Öðlinganna þannig að hann lét aldurinn lítið draga úr spilamennskunni og var lengi virkur í lifandi tónlist, síðast lék hann eftir því sem best verið vitað á plötu með Edwin Kaaber og félögum sem kom út fyrir jólin 2013 en þar áður hafði hann leikið á tónleikum og samnefndri plötu sem gefin var út til minningar um Elly Vilhjálms árið 2012.

Árið 2009 kom út ævisaga Guðmundar Steingrímssonar, skráð af Árna Matthíassyni blaðamanni á Morgunblaðinu, bókin ber titilinn Papa jazz: Lífshlaup Guðmundar Steingrímssonar, og kom út í tilefni af áttatíu ára afmæli hans en viðurnefnið Papa jazz hafði Guðmundur hlotið hjá Ómari Valdimarssyni blaðamanni fyrir margt löngu.

Guðmundur kom samhliða ofangreindum hljómsveitum og plötum að annars konar verkefnum í tónlistinni, hann kom að útgáfu plötu sem hafði að geyma upptökur með KK-sextettnum (1984, endurútgefin 1998) og bar titilinn Gullárin, hann hélt ásamt Birni Thoroddsen utan um útgáfu safnplötunnar Hafnarfjörður í tónum (1997), kom við sögu á plötunum FÍH 50 ára: 1932-82 (þar sem hann lék með tveimur hljómsveitum), einnig má nefna plötuna Októberlauf í samstarfi við Carl Möller og Ljóð og jazz, þar sem djasstónlist var blandað saman við ljóðalestur (2001). Þá er auðvitað ógetið allra þeirra safnplatna sem hafa að geyma trommuleika Guðmundar með ýmsum flytjendum frá ýmsum tímum.

Guðmundur Steingrímsson er eitt stærsta nafn íslenskrar tónlistarsögu þótt hann hafi e.t.v. ekki verið í framlínunni, trommuleik hans má heyra jöfnum höndum í djassi, dægurtónlist og öðrum tónlistarstefnum frá öllum tímum sem létt nútímatónlist hvaða nafni sem hún kann að nefnast, hefur verið til. Guðmundur var fyrir það starf heiðraður með margvíslegum hætti, hann hefur hlaut m.a. bæði silfur- og gullmerki Félags íslenskra hljómlistarmanna og heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna, og það hlýtur að teljast með ólíkindum að hann skuli ekki hafa verið meðal handhafa hinnar íslensku fálkaorðu.

Guðmundur Steingrímsson lést vorið 2021, á nítugasta og öðru aldursári.

Efni á plötum