
Ágúst Pétursson
Afmælisbörn Glatkistunnar eru þrjú að þessu sinni:
Bryndís Sunna Valdimarsdóttir er fimmtíu og eins árs gömul í dag. Bryndís lærði söng og píanóleik, hefur sungið inn á nokkrar plötur og verið í hljómsveitum eins og 8villt og Doríu, og sönghópum eins og Afródítum og Söngsystrum en líka sungið í sýningum eins og Bítlaárunum, sem sett var á svið á Hótel Íslandi. Hún hefur einnig getið sér gott orð fyrir lagasmíðar sínar í ýmsum sönglagakeppnum eins og undankeppni Eurovision, Sæluviku Sauðkræklinga og Ljósanótt.
Píanóleikarinn og hljómsveitastjórinn Aage (Reinhart) Lorange (1907-2000) átti líka afmæli á þessum degi en hann var kunnur tónlistarmaður á árum áður. Hann starfrækti eigin hljómsveitir og lék með öðrum sveitum, lék inn á fjölmargar plötur og var jafnan kallaður jazzkonungurinn. Aage var virkur í starfi sínu langt fram eftir aldri og var enn að fast að níræðu.
Ágúst (Metúsalem) Pétursson (1921-86) átti þennan afmælisdag líka. Hann var kunnur tónlistarmaður, kom upphaflega úr Þistilfirðinum en bjó lengi í Vestmannaeyjum áður en hann fluttist til Reykjavíkur. Ágúst var þekktastur sem harmonikkuleikari og lagahöfundur (plata hefur komið út með lögum hans) en hann lék á fleiri hljóðfæri og var m.a. organisti um tíma. Hann var í ýmsum hljómsveitum s.s. Smárakvartettnum og Hljómatríóinu, og var aukinheldur virkur í félagsstarfi tónlistarmanna eins og Félagi harmonikkuunnenda.