Afmælisbörn 7. ágúst 2020

Valdimar Guðmundsson

Í dag koma fjölmörg afmælisbörn við sögu Glatkistunnar:

Rannveig Jóhannsdóttir er sjötíu og eins árs gömul en margir hinna eldri muna eftir henni frá fyrstu árum Sjónvarpsins en hún sá þá um Stundina okkar ásamt hrafninum Krumma. Reyndar kom einnig út lítil plata með þeim Rannveigu og Krumma. Rannveig var lítið áberandi eftir þetta sjónvarpsævintýri en birtist reyndar löngu síðar aftur í Ríkissjónvarpinu með morgunsjónvarp fyrir börn.

Bassaleikarinn Hermann Jónsson er fimmtíu og eins árs gamall í dag. Hermann lék hér áður á bassa með fjölda hljómsveita og meðal þeirra má nefna sveitirnar Rauðir fletir, Orgill, Niður, Megakukl, Concert, Dýrlingarnir og Dýrið gengur laust.

Bergur Geirsson er fimmtugur í dag. Hann hefur leikið á bassa og önnur hljóðfæri með fjölda sveita s.s. Buff, Tríói Jóns Leifssonar, Saffó, Íslenska fánanum, Bítlunum og Hvatberum en hefur einnig gegnt umboðsmennsku, rótarastörfum og hljóðversstörfum í íslensku tónlistarlífi.

Katrín Helga Ólafsdóttir söngvari og hljómborðsleikari úr Hafnarfirði er tuttugu og fjögurra ára gömul í dag. Hún hefur gefið út tónlist undir sólóista-nafninu K. Óla en hefur einnig starfað með hljómsveitum eins og White signal, Milkhouse og Marvin straight.

Skúli Gestsson bassaleikari Diktu á einnig afmæli í dag en hann er þrjátíu og átta ára gamall. Skúli, sem reyndar leikur bæði á bassa og hljómborð, hefur starfað með Diktu síðan sveitin var stofnuð 1997 og tók þátt í tvennum Músíktilraunum með sveitinni áður en fyrsta platan kom út. Síðan hafa komið út nokkrar plötur með sveitinni.

Þá á fyrsti trommuleikari Hljóma, Eggert (Valur) Kristinsson sjötíu og sjö ára afmæli á þessum degi. Eggert sem er frá Keflavík lék með fjöldanum öllum af hljómsveitum þar í bæ, fyrst aðeins tólf ára með Hljómsveit Gagnfræðiskólans í Keflavík en síðan með sveitum eins og Saxon, Beatniks, Heiðursmönnum, Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, Spútnik tríó, Capri tríó, Tíglum og Nátthröfnum svo nokkrar séu hér upp taldar.

Að síðustu er hér nefndur tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson eða bara Valdimar en hann er þrjátíu og fimm ára gamall í dag. Valdimar sem er söngvari og básúnuleikari hljómsveitarinnar Valdimar hefur sungið ógrynni stórsmella með sveit sinni en hann hefur einnig verið í sveitum eins og Streng, Gosum og Eldum og sungið og leikið á plötum annarra listamanna eins og Snorra Helgasonar, Bubba Morthens, Helga Júlíusar Óskarssonar og margra annarra.