Humoresque

Humoresque
(Lag / texti: erlent lag / Jakob V. Hafstein)

Þegar geislar sumarsólar
signa grundir, dal og hóla,
man ég brosið blítt í augum þínum.
Sat ég þá hjá læk í lautu,
lét mig gleyma öllum þrautum,
dvaldi í draumum mínum.

Þetta allt við áttum saman,
yndislegt var þá og gaman
er við gengum tvö í græna lundinn.
Frjálsir heyrðust fuglar hjala,
frítt var þá um byggðir dala,
blærinn bærði sundin.

Manstu þegar vorið á vængjum fór um dalinn,
vini sína kyssti á hverjum bæ?
Lækir allir þutu í leik um fjallasalinn,
liðu burt og hurfu í þöglan sæ.

Þér ég helga þessa óma,
þessa léttu, glettnu hljóma,
þetta vor í lagi og ljóði mínu.
Allt það sem ég ann af hjarta,
ástin mild og ljósið bjarta
býr í brjósti þínu.

Þegar glitrandi loft er gullskýjum vafið,
geislandi sól í heiði skín,
dreg ég seglin við hún og sigli’ út á hafið,
syngjandi í byr til þín, þú ástin mín.

[engar upplýsingar um útgáfu]